golfmot2016

 

Árshátíð Landeigendafélags Hests 2016 verður haldin með hefðbundnum hætti um Verslunarmannahelgina og fer fram á félagssvæðinu í Kinnhesti laugardaginn 30. júlí. Að venju hefst árshátíðin kl. 13:00 á Brandarakeppni barna og að henni lokinni fer fram Hestlandsmeistaramót í Kubb. Léttar veitingar (pylsur og gos) verða í boði félagsins að Brandarakeppninni lokinni. Um kl. 21 um kvöldið verður varðeldur í Kinnhesti með brekkusöng.
Skráning í Kubbmótið og Brandarakeppni barna fer fram á staðnum. Keppt er um veglega farandgripi. Að vanda keppa 3ja manna lið í Kubbmótinu. Einnig er veitt viðurkenning fyrir besta liðsbúninginn. Kennsla fyrir byrjendur í Kubbi fer fram í Kinnhesti keppnisdaginn kl. 11:00.

Upplýsingar um reglur Brandarakeppninnar og Hestlandsmeistaramótsins í Kubbi má sjá á heimasíðu félagsins undir  "Landeigendafélag" og þar undir ”Félagsstörf”.

Góða skemmtun!

f.h. árshátíðarnefndar,

Halldór í Kerlingagarði

Árshátíð Hestlendinga fór fram um Verslunarmannahelgina að vanda. Veður hefur verið með eindæmum gott í sumar og hélst það um helgina, sól, hiti og stillt veður.  Árshátíðin er með föstu sniði og hófst í Kinnhesti eftir hádegi á laugardeginum með Brandarakeppni barna. Að þessu sinni var Baldur í Vesturási formaður dómnefndar en með honum í dómnefnd voru Lára í Miðgarði og Halla í Hlíð. Átján börn tóku þátt í keppninni. Mátti heyra marga mergjaða brandara sem fluttir voru af innlifun og með viðeigandi látbragði. Þegar niðurstaða var fundin og úrslit kynnt sagði Baldur að starf dómara hefði verið afar erfitt en fagnaði því að góður húmor væri tryggður meðal Hestlendinga næstu kynslóðar. Dómnefnd var sammála um að Orri frá Sómastöðum ætti besta brandarann og væri handhafi farandbikars keppninnar næsta ár. Orri endurtók í  þakkarskyni brandarann með faglegum leiktilburðum þar sem hann líkti eftir tilburðum kyrkislöngu þar sem hún tjáði garðslöngu misskilda ást sína. Með því varði Orri titil Sómastaða en eldri systir hans vann keppnina í fyrra.

hestland2016

Að Brandarakeppninni lokinni  voru veitingar fram bornar í boði félagsins, pylsur og gos. Sáu þær Anna í Kvisti og Sigrún á Stórakambi um eldamennskuna.

Í kubbmótið í ár voru skráð 28 lið, sem er nýtt fjöldamet. Mörg liðanna voru klædd í glæsilega búninga og sjá mátti að þau höfðu undirbúið þátttöku sína af kostgæfni. Að vanda var keppt á fjórum völlum en dómarar keppninnar voru Róbert í Laufeyju, Páll í Stapa, Sigurður í Ásgarði, Jón Karl í Reynihlíð og Skúli á Staðarhóli. Hart var barist en mótið er útsláttarmót og úrslit hvers leiks því afdrifamikil og miskunnarlaus. Mátti bæði sjá tár á hvarmi keppenda og heyra skerandi fagnaðaróp þegar niðurstaða leikja réðst. Að lokum stóðu fjögur lið eftir; ungt lið frá Bakka sem sýnt hafði ótrúlega þrautseigju og úthald í keppni við sér reyndari lið; gamalreynt lið frá Reynihlíð, og tvö lið frá Laufeyju, sem tengist sögu íþróttarinnar í Hesti sterkum böndum.  Laufeyjarmenn voru allir klæddir búningi íslenska landsliðsins í fótbolta enda nýkomnir frá Evrópukeppninni í Frakklandi. Eftir undanúrslitaleikina stóðu tvö lið Laufeyjar eftir sem sigurvegarar og var aðeins formsatriði þeirra í milli að keppa um fyrsta sætið. Um bronsið kepptu sínan ungt lið Bakka gegna reyndum hetjum Reynihlíðar. Fór leikurinn svo að reynsla og aldur sigruðu og fengu Reynihlíðarmenn verðskuldað brons. Ungt lið Bakka mátti þó vel við una og stóð sig í raun frábærlega sem bjartasta von keppninnar.

hestland20162

Við verðlaunaafhendingu var liði Parísar veitt viðurkenning fyrir búninga, en keppendur frá París klæddust allir sérskreyttum appelsínugulum bolum sem lífguðu keppnina og efldu keppnisanda Parísarbúa.

Um kvöldið komu Hestlendingar saman til varðelds í Kinnhesti kl. 21:00. Benóný í Draumi hafði stillt upp hljóðflutningskerfi og Sigurður í Ásgarði hafði sett upp ljósaseríur sem lýstu hátíðargestum þegar rökkva tók. Formaður Hestlendinga, Ólafur í Litlabæ, flutti ávarp, bauð Hestlendinga og gesti velkomna og þakkaði undirbúning árshátíðarinnar. Þá steig Helga á Hlíðarenda fram og flutti kvæði sem hún hafði samið og flutt á árshátíð fyrir meira en tíu árum. Þessum flutningi fögnuðu árshátíðargestir með Hestlandsskál og lófataki.  Samkvæmt dagskrá átti Gunnar á Dverghamri að leiða brekkusöng. Þegar hann forfallaðist á síðustu stundu hljóp hin nýstofnaða þjóðlagasveit Hestlendinga, Alli, Palli, Halli og Skúli skakki, í skarðið. Sveitina skipa Alexander í Brekkukoti (gítar, bassi), Páll í Stapa(gítar), Skúli á Staðarhóli (gítar) og Halldór í Kerlingagarði (ukulele), auk Sigurðar í Ásgarði (kassatromma).  Alexander átti reyndar ekki heimangengt vegna barnapössunar en í staðinn aðstoðaði Ólína í Kerlingagarði með forsöng. Undi fólk sér svo við söng og gleði meðan varðeldurinn logaði í rökkri hlýrrar ágústnætur.

Fyrir hönd árshátíðarnefnar þakka ég öllum Hestlendingum góða samvinnu og þakkir fyrir aðstoð og fyrirgreiðslu við undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar. Umgengni og framkoma gesta var til fyrirmyndar að vanda.

Halldór í Kerlingagarði.

Myndir teknar af facebook án sérstaks leyfis.

Ágætu Hestlendingar.
Við höfum fengið fyrirspurn um hvað líði hitaveituframkvæmdum og í framhaldi af því hafði ég nú áðan samband við Börk Brynjarss. veitustjóra hjá GOGG.  Hann upplýsti mig um að framkvæmdir í Kiðjabergi hafi tafið verkið en gerir ráð fyrir að komið verði með lagnaefnið inn í Hestland nú um helgina og framkvæmdir við lögnina hefjist í kjölfarið.
Veitustjórn hefur falið tilteknum starfsmanni að hafa samband við hvern og einn sem ætlar að taka inn hitaveituna um lagnaleið að hverjum bústað.  Haft verður samband við hvern og einn eftir því sem lagningu miðar áfram en ef einhverjar spurningar vakna er bent á að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins.

f.h. stjórnar
Ólafur Kristinsson