Aðalfundur Hests og Bunu

21. febrúar 2017

 

Sameiginleg skýrsla stjórnar Hests og Bunu.

Félag landeigenda í Hesti og félag vatnsveitueigenda í Bunu hafa þann tilgang og markmið að vinna að sameiginlegum hagsmunum félagsmanna og hlutverk stjórna beggja félaganna er að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin af aðalfundi eða falla til á starfstíma þeirra.  Stjórnir beggja félaganna hafa sem fyrr haldið sameiginlega stjórnarfundi enda fara hagsmunir félaganna saman. 

Hér á eftir er gerð í stuttu máli grein fyrir því sem stjórnir félaganna hafa unnið að á liðnu starfsári:

Vinnudagur:

Á hverju vori er hugað var að vorverkum í Hesti og þann 21. maí og mætti að venju góður hópur í Kinnhestinn til að takast á við hin ýmsu verkefni.   Tekið var til á svæðinu í Kinnhesti eins og venja er að loknum vetri og gengið var eftir Orminum langa, settar bætur á slitlagið og lagfærðir kantar.  Auk þess var farið yfir ástand girðingarinnar, endurnýjaðir staurar og strekkt á vírum.  Áframhald verður á því verkefni á komandi sumri.    

Enn á ný er ljúft að þakka aðstoðina frá Benóný sem hefur útvegað okkur gám til þess að safna því sem ekki er hæft á brennu og séð okkur fyrir moltu og möl.  Í lok vinnudagsins var að venju boðið upp á kaffi og meðlæti.

Brunavarnir:

Á þessum vettvangi er rétt og nauðsynlegt að minna á mikilvægi brunavarna. Hver og einn lóðareigandi verður að huga að sínu nærumhverfi, leitast við að hafa sem minnstan eldsmat við bústaðinn, brýna fyrir sínum nánustu að hafa fyllstu aðgát þegar grillað er, ekki síst ef bústaðurinn er í höndum gesta og hafa greiðan aðgang að vatni, góða krana og slöngur.

Hitaveitumál:

Helsta verkefni stjórnar undanfarin þrjú ár hefur falist í ýmsum samskiptum við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps og veitustjórn vegna lagningar hitaveitu í Hestlandið .  Sú vinna hefur verið unnin í góðu samstarfi við stjórn sumarhúsaeigenda i Kiðjabergi enda um sameiginlegt hagsmunamál að ræða. 

Á vormánuðum 2016 var birt minnisblað frá veitustjórn GOGG á heimasíðu félagsins og á „facebook“ síðu Hestlendinga þar sem gerð var grein fyrir tímasettri áætlun um framkvæmdir.  Þar kom fram að gert væri ráð fyrir að áfram yrði haldið með lagningu stofnæðar að sumarhúsasvæðunum á vormánuðum.  Gert var ráð fyrir að hafist yrði handa við lagningu stofnæðar og heimæða í Hesti um 1. maí og stefnt að því að heitt vatn verði komið á fyrir lok september.  Ýmsar tafir urðu á framkvæmdum og verkinu lauk ekki fyrr en liðið var á desembermánuð.  Nú fjölgar þeim ört sem eru búnir eða eru að ganga frá tengingu við hitaveituna. 

Vatnsveitumál

Eftir úrbætur sem gerðar voru á dælubúnaði og raflögn vatnsveitunnar á árinu 2015 hafa engin vandamál komið upp og rekstur hennar gengið vel.  Tveir nýir notendur tengdust vatnsveitunni á árinu.

Snjómokstur

Eigendur sumarhúsa hér sem annars staðar nota sumarhúsin í vaxandi mæli allt árið og ekki síst þar sem ekki er um langan veg að fara til þess að njóta kyrrðar í sveitasælunni.  Það hefur þess vegna verulega þýðingu að hægt sé að komast um sumarhúsasvæðið yfir vetrartímann eftir því sem aðstæður leyfa. Stjórnir sumarhúsafélaganna í Hesti og Kiðjabergi gerðu samkomulag við Golfklúbbinn í Kiðjabergi um snjóruðning og fjárfesti klúbburinn í tækjabúnaði til að annast slíka þjónustu auk eigin nota af dráttarvél sem klúbburinn festi kaup á.  Til þess að auðvelda klúbbnum fjárfestinguna greiddu félögin fyrirfram fyrir veitta vetrarþjónustu í trausti þess að samkomulagið væri báðum aðilum hagfellt.  Þetta fyrirkomulag reyndist okkur frábærlega á síðasta vetri sem var snjóþungur og er sú þjónusta sem GKB veitti á þeim tíma mikils metin. 

Í desember s.l. tilkynnti golfklúbburinn að ákveðið hafi verið að selja dráttarvélina og búnaðinn og hafa stjórnir Hests og Kiðjabergs lagt fram kröfu um endurgreiðslu á því sem eftir er af þeirri fyrirframgreiðslu sem félögin lögðu fram.  Þar sem veturinn í ár hefur verið nær snjóalaus hefur lítið reynt á snjóruðning en semja þarf um slíka þjónustu við einhvern aðila í nágrenninu fyrir næsta vetur.      

Heimasíðan og „facebook“:

„Facebook“ síða félagsins og heimasíðan hestland.is eru mikilvægur vettvangur samskipta stjórnar við félagsmenn og milli félagsmanna þar sem hægt er að koma á framfæri ýmsum upplýsingum og fréttum.  Það er því  mikilvægt fyrir stjórn félagsins að hafa traustan aðila sem heldur utan um vefsíðuna og aðstoðar við að senda dreifibréf og koma á framfæri upplýsingum til félagsmanna.  Við þökkum enn og aftur  vefsíðustjóra, Áslaugu Dagbjörtu Benónýsdóttur, sem annast þessa þjónustu fyrir frábært samstarf á liðnu starfsári.

Annað:

Með vorinu mun verktakinn sem lagði stofnlögn hitaveitunnar í Hestlandið lagfæra yfirborð vegarins um landið á þeim stöðum þar sem rjúfa varð veginn fyrir lögnina.  Það er hins vegar ljóst þeim sem um veginn fara að yfirborðið er farið að gefa sig á ýmsum stöðum og það kemur að því fyrr en seinna að ráðast þarf í endurbætur á veginum. 

Eins og flestum er væntanlega kunnugt voru jarðirnar Hestur og Gíslastaðir auglýstar til sölu á liðnu ári og sýndu ýmsir aðilar áhuga á að kaupa jörðina Hest.  Stjórnir Hests og Bunu komu ekki að viðræðum um möguleg kaup á jörðinni en reynt var að greiða fyrir því að umræða um málið gæti átt sér stað meðal félagsmanna.  Landeigendur ákváðu í nóvember s.l. að hætta við sölu á þessum jörðum svo ekki reyndi á það hvort samkomulag næðist við þá sem sýnt höfðu málinu áhuga.     

Árlegir viðburðir á vettvangi félagsins eru árshátíðin og þorrablótið.  Þeir sem báru veg og vanda af þessum samverustundum eiga þakkir skildar en um báðar þessar hátíðir er fjallað á heimasíðu félagsins.

Stjórnir Hests og Bunu þakka félagsmönnum ánægjulegt samstarf á liðnu starfsári.

f.h. stjórna félaganna

Ólafur Kristinsson, formaður Hests

Einar Vilhjálmsson, formaður Bunu

Kæru Þorrablótsfélagar í Hesti

Nú fer gleðin að bresta á.

Undirbúningsnefndin minnir á vísnakeppnina. Hvaðan koma snjöllustu vísurnar þetta árið ? Einhvers líklega að vænta frá gestum á Staðarhóli.  Svo eykst spennan í þverslaufukeppni karla. Verður það selskinnið í ár eða útskorna slaufan ? Loks verður keppnin um flottustu og frumlegustu kvenhattana æsispennandi. Kemur Kleópatra á svæðið eða verður það drottningarhattur í ár ?

Óskalögin má svo annað hvort senda undirbúningsnefndinni, Benóný eða Jenettu beint.  

Einnig hefur frést  af  stífum æfingum Svilabandsins.  Nefndin æfir líka sinn eigin kór og hlakkar til að sýna ykkur árangurinn annað kvöld. Annállinn er svo í smíðum á Stapa og bíða menn spenntir af fréttum þaðan.

Munið kl. 18.30 byrjar ballið.  Flugeldar kl. 18.45.

Bestu kveðjur

Undirbúningsnefndin.

Aðalfundur

Landeigendafélagsins Hests og Vatnsveitunnar Bunu verður haldinn þriðjudaginn 21. febrúar 2017 í safnaðarheimili Seljakirkju Hagaseli 40, 109 Reykjavík og hefst hann klukkan 20:00.

Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf (sjá samþykktir hér á síðunni).

Ef eigendaskipti verða á löndum í Hestlandi, þá ber að tilkynna það á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. 

f.h. stjórna félaganna

Ólafur Kristinsson.

Blótað í Hesti 2017

Örfá sæti enn laus!!!

19. þorrablót Hestlendinga verður haldið fjórtánda dag janúarmánaðar 2017

Kæru Hestlendingar.

Þá er komið að hinu árlega þorrablóti sem verður haldið laugardaginn 14. janúar 2017 í Golfskálanum Kiðjabergi. Húsið verður opnað kl. 18.30, flugeldum skotið upp kl. 18.45 og hátíðin hefst stundvíslega kl. 19.00 Dagskrá verður að mestu með hefðbundnum hætti, konur prýða sig með höttum og karlar með slaufum. Vísur um bústaðinn ykkar eru kærkomnar, eins er ykkur velkomið að flytja sögur úr Hestlandi, í bundnu eða óbundnu máli.

Verðlaun fyrir frumlegustu/flottustu slaufuna og hattinn og bestu vísuna.

Velkomið er að taka með sér gesti.

Innkaup þarf að áætla miðað við fjölda gesta, því er brýnt að staðfesta þátttöku og greiða sem fyrst. Þátttaka tilkynnist annað hvort á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. Verðið er 6000 krónur per mann. Vinsamlegast greiðið pantaða miða inn á reikning 0345-26-6999 kt. 600891-1389 og senda staðfestingu á netfang This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. því fyrr því betra.

Í fyrra seldust upp allir miðar og við hvetjum ykkur því til að bregðast fljótt við og tryggja ykkur miða. Viljum endilega fá ykkur sem flest á þorrablót 2017 Við skráningu getið þið sent inn ósk um eitt danslag (eitt lag frá bústað) og er það pantað um leið og miðar.

Bestu kveðjur,

Nefndin sem skipa:

Lára og Þorsteinn í Miðgarði 
Sigurbjörg og Sigurður í Heiðarhvammi 
Margrét og Jón Ásgeir á Lynghóli
Anna og Sigurður í Ásgarði