1. gr.
Félagið heitir „Hestur" og er tilgangur þess að vinna að sameiginlegum málum svæðisins. Heimili þess og varnarþing er í Árnessýslu.

2. gr.
Félagar eru: Allir eigendur á skipulögðu sumarbústaðalandi á Hesti.

3. gr.
Stjórn félagsins skipa 3 menn, formaður, ritari og gjaldkeri. Formaður skal kjörinn sérstaklega. Ennfremur skal kjósa 2 endurskoðendur. Þá skal og kjósa tvo varamenn í stjórn. Stjórnin skal kosin til tveggja ára en í fyrsta skipti sem kosið er skal kosinn einn aðalmaður og einn varamaður til eins árs. Stjórn félagsins getur ekki skuldbundið félagsmenn fjárhagslega.

4. gr.
Allir félagsmenn eru skyldugir til að greiða kostnað er leiðir af framkvæmdum við aðalveg og girðingar, en því aðeins af öðrum framkvæmdum að þeir óski eftir að taka þátt í þeim.

5. gr.
Aðalfundur skal haldinn ár hvert fyrir lok maímánaðar og skal hann boðaður skriflega með hálfs mánaðar fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Á aðalfundi skal gerð grein fyrir störfum stjórnar og lagðir fram reikningar félagsins, undirritaðir af endurskoðendum. Á aðalfundi skal gerð grein fyrir áætluðum framkvæmdum á næsta starfsári og kostnaður við þær. Allir félagsmenn skuldbinda sig til að taka þátt í sameiginlegum framkvæmdum félagsins og greiða kostnað við þær með þeim takmörkunum sem leiðir af 4. gr. Félagsgjöld ákveður aðalfundur með hliðsjón af þeim framkvæmdum sem samþykktar verða á aðalfundi. Þau fylgja almanaksári.

6. gr.
Hverju sumarbústaðalandi fylgir eitt atkvæði. Við félagsstofnun þann 30. júní 1991 er fjöldi atkvæða 126. Skylt er að tilkynna formanni félagsins ef eigendaskipti verða á sumarbústaðalandi, enda skulu öll réttindi og skyldur er við landið eru bundin falla til hins nýja eiganda. Kostnaði við sameiginlegar framkvæmdir skal deilt að jöfnu á handhafa atkvæðisréttar, með þeim takmörkunum sem leiðir af 4. gr.

7. gr.
Félagsfundi skal boða með viku fyrirvara, ef stjórn ákveður eða a.m.k. 7 félagsmenn óska þess skriflega. Félagsfundir skulu boðaðir á sama hátt og aðalfundur. Félagsmanni er heimilt að senda umboðsmann á alla fundi. Umboð skal vera skriflegt.

8. gr.
Samþykktum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi og með 2/3 hlutum atkvæða fundarmanna.

Samþykkt á stofnfundi 30. júní 1991
Breytingar á 5. gr. 25. maí 1993