Minnum á aðalfundinn 11. apríl n.k.

Minni á aðalfund Hests og Bunu í safnaðarheimili Seljakirkju mánudaginn 11. apríl kl. 20:00. Þeir sem vilja taka þátt í að spara pappír geta fengið fundargögn send í tölvupósti. Fundargögn fáið þið með því senda tölvupóst á netfangið: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Ásamt upplýsingum um viðkomandi lóð eða nafn á bústað.

Halldór í Kerlingagarði.

Árshátíð í Hesti 2022

Árshátíð Hestlendinga 2022 var haldin um Verslunarmannahelgina, laugardaginn 30. júlí, eftir tveggja ára hlé. Veðurútlit var tvísýnt fram eftir viku vegna lægðagangs fyrir austan land en laugardagurinn rann síðan upp í Hesti bjartur og fagur með sól og hægri norðvestanátt. Hélst veður hið besta allan daginn með sól og hægum andvara. Um kvöldið stillti og var umgjörð brekkusöngs og samveru við brennuna eins góð og hún gat best verið.
Hefðbundin dagskrá byrjaði kl. 13:00. Fjöldi fólks, á annað hundrað manns, var strax saman kominn í Kinnhesti og naut samvista vina og nágranna með börnum sínum í veðurblíðunni en árshátíðinni hafði verið frestað tvö undanfarin ár vegna farsóttarinnar.
Fjórtán þátttakendur tóku þátt í Brandarakeppni barna og var öllum vel fagnað. Formaður dómnefndar var Jón í Draumahæð en meðdómarar með honum Þorsteinn í Miðgarði og Anna í Ásgarði. Starfmaður dómnefndar og stigavörður var Þórhildur í Kerlingagarði. Leysti dómnefnd hið erfiða og flókna starf sitt af öryggi og réttsýni en brandarar voru metnir með tilliti til framsagnar, efnistaka, látbragðs/leikrænna tilbuðra og fyndni. Rugguhesturinn, farandgripur keppninnar, fór að þessu sinni til Stórakambs fyrir atbeina snjallrar sögu Sigga sem flutt var af innlifun og fagmennsku. Í öðru sæti var Hugi í Kerlingagarði en þriðja sæti skiptu með sér Andrea í Laufeyju, Bjarki á Bólum, og Sóley í Hlíðarenda með jöfn stig.
Að brandarakeppni lokinni voru reiddar fram veitingar. Framreiðsla þeirra var í höndum Lindarbergs og Dagsláttu. Samtímis hófst skráning í þátttöku Hestlandsmeistaramóts í kubbi. Alls voru skráð 23 lið í keppni. Margri bæir sendu fleiri en eitt lið. Mótinu, sem er útsláttarkeppni og háð á fjórum völlum, var stjórnað að Halldóri í Kerlingagarði. Dómarar í keppninni voru Páll í Stapa, Róbert í Laufeyju, Skúli á Staðarhóli og Sigurður í Ásgarði, sem dags daglega gengur undir nafninu „Siggi bróðir“ meðal Hestlendinga. Keppnin var hörð að vanda og voru liðin hvött óspart af stuðningsmönnum sínum. Mátti um allt Hestland heyra hvatningarhróp þeirra og fagnaðarlæti eftir því hvernig keppendum vegnaði. Mótinu lauk með þeirri óvæntu niðurstöðu að fyrsta og annað sæti féllu í skaut liða frá Brekku. Brekkubændur fór því aftur heim með farandbikarinn eftirsótta, en Brekka vann einnig síðustu keppni (2019). Í þriðja sæti var svo lið frá Reynihlíð.
Formlegri árshátíðardagskrá lauk með brennu og brekkusöng í Kinnhesti kl. 21:00. Þátttaka Hestlendinga, gesta og vina var með ágætum en áætlað er að milli tvö og þrjú hundruð manns hafi verið við brennuna. Síðast var kveikt í brennunni fyrir tveimur árum. Vel gekk að kveikja í brennunni en um íkveikjuna sáu Birgir í Tröð og Halldór i Kerlingagarði, sem jafnframt var ábyrgðarmaður brennunnar og brennustjóri. Formaður, Sigurður í Hásteini, flutti stutt ávarp og sungin var Hestlandsskál. Að því loknu tók trúbadorinn, Arnar Friðrik, við brekkusöngnum með skemmtun og hljóðfæraleik. Arnar spilaði á gítar en hann er fjölhæfur tónlistarmaður og náði strax að tengjast söngelskum og brekkusöngsþyrstum Hestlendingum. Kvöldsólin skein síðan í kvöldkyrrðinni á hátíðargesti sem nutu samverunnar þar til sólin gekk til viðar.
Þakkir eru færðar öllum þeim sem aðstoðuðu við árshátíðina. Auk þeirra sem þegar hafa verið nefndir var Alexander í Brekkukoti rótari hátíðarinnar, náði í og stillti upp hljóðflutningstækjum og skilaði þeim aftur í golfskálann. Sigurður í Ásgarði sá um lýsingu á hátíðarsvæðinu og Páll í Stapa tryggði eldvarnir við íkveikju brennunnar. Pálmi á Hlíðarenda á síðan allan heiður af því að útvega trúbadorinn sem vonandi verður gestur hátíðarinnar á næstu árum. Þá veittu formaður og gjaldkeri, Sigurður í Hásteini og Edda í Brekkukoti, ómetanlegt lið við útvegun brennuleyfis. Umgengni var til fyrirmyndar um kvöldið, sem verður okkur öllum eftirminnilegt fyrir veðurblíðu og ánægjulega endurkomu þessa mikilvæga þáttar í félagslífi Hestlendinga.

Halldór í Kerlingagarði

Aðalfundur Hests og Bunu - 11.apríl 2022
 
Aðalfundur Hests og Bunu verður haldinn í safnaðarheimili Seljakirkju, mánudaginn 11. apríl, kl. 20.
Almenn aðalfundarstörf. Veganefnd gerir grein fyrir vinnu sinni og kynnir tillögur sínar varðandi viðhald vegarins.
 
F.h. stjórna félaganna,
Halldór í Kerlingagarði og Birgir í Tröð.