Golfmót golfklúbbs Hestlendinga var haldið þann 31/09 eins og gert hafði verið ráð fyrir. Veðurspáin var válynd og kvikfénaði víða um land gert að halda sig inni. Þetta tóku Hestlendingar að sjálfsögðu ekki til sín og uppskáru fínan dag á Kiðjabergsvelli. Mótinu lauk svo með hátíðarkvöldverði og verðlaunaafhendingu.

Klúbbmeistari 2013 er Bragi í Klettaseli og hélt þar með titlinum frá því í fyrra.

Meistari í kvennaflokki 2013 með forgjöf  er Anna Rósa í Hlíð.

Meistari í karlaflokki 2013 með forgjöf 2013 er Bergur í Laut.

Fyrir hönd golfklúbbsins þakka Steindór á Bólum og Rafn á Brekku fyrir góða þátttöku og vel heppnað mót.

Athugið! Til þess að sjá fréttina í heild sinni ásamt myndum er hægt er að smella á fyrirsögn fréttarinnar hér fyrir ofan.

hestland golfmot 4

hestland

golfmot 2013

golfmot 2013 1

golfmot hestland 2013 2

golfmot hestland 2013 3

Golfmót Hestlendinga

Laugardaginn 31. ágúst 2013 kl. 14,00

alt

Spilaðar eru 18 holur á Kiðjabergsvelli, verðlaun eru veitt í eftirtöldum flokkum:
• Klúbbmeistari er besta skor án forgjafar.
• Kvennaflokkur með forgjöf
• Karlaflokkur með forgjöf
• Nándarverðlaun eru veitt á öllum par 3 brautum.
• Hámarks forgjöf í mótinu er 36.

Gjaldgengir í golfmótið eru sumarbústaðareigendur í Hesti, foreldrar þeirra, afkomendur og tengdabörn.

Þátttökugjald er kr. 1.500 fyrir félaga í GKB, annars kr. 4.500.
Verðlaunaafhending og kvöldverður fyrir þá sem það kjósa að móti loknu. Nánari upplýsingar um verð og fyrirkomulag á veitingum liggja fyrir þegar nær dregur móti.

Þáttaka tilkynnist á netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. í síðasta lagi 29.08.11.

Verðlaun í mótið eru þegin með þökkum.

Stjórn GHE.

 

Kæru kylfingar!

Nú fer hver að verða síðastur að skrá sig í golfmótið á laugardaginn kemur.
Veðurstofan er að vinna í sínum málum og lítur allt út fyrir "skínandi" veður.
Þá er kokkurinn einnig farinn að ókyrrast, en hann ætlar að bjóða uppá hægeldað lamb með tilheyrandi fyrir 3700 kr per kylfing. Það þarf að mariner og gæla við þetta í smá tíma og vill hann því fá að vita í síðasta lagi nk. fimmtudag hverjir ætla sér í lambið. Annars eru það bara pulsur.

Með kveðju,

Mótanefnd

Árshátíð Landeigendafélags Hests fór fram laugardaginn 3. ágúst s.l. Fólk hafði haft nokkrar áhyggjur af veðurspá í aðdraganda helgarinnar en spáin batnaði eftir því sem nær dró og á endanum varð ágætis veður til hátíðahalda.

Dagskrá og undirbúningur hátíðarinnar var með hefðbundnum hætti. Undirbúningur var í margra höndum og hafði staðið í nokkurn tíma. Meðal annars höfðu Jóhannes í Æsu og Halldór í Kerlingagarði tekið dagpart í að smíða verlaunagripi fyrir kubbamótið. Halldór sá einnig um að sækja um leyfi fyrir varðeldi til lögreglunnar á Selfossi. Innkaup vegna veitinga önnuðust Jenetta og Benóný í Draumi. Þá hafði Elísabet á Staðarhóli milligöngu um að fá Garðar Garðarsson til að spila fyrir brekkusöng. Föstudaginn fyrir árshátíð hafði Jenetta í Draumi kallað til lið vaskra manna að lagfæra varðeldinn og fjarlægja sprek og afklippur af varðeldasvæðinu. Þá tengdi Buna nýja brunaslöngu við dæluna í Kinnhesti og Benóný í Draumi sá um að bleyta svæðið í kring um varðeldinn þannig að ekki skapaðist eldhætta vegna sinubruna. Árni í Gaularási sá síðan um að slá grasflatirnar í Kinnhesti svo hægt væri að nota þær sem keppnisleikvang fyrir kubbamótið.  Eins og oft áður var farið yfir reglur mótsins kl. 11:00 á keppnisdag og nýliðar fræddir um leikinn.

Hátíðin byrjaði kl. 13:00 með brandarakeppni barna en strax að henni lokinni hófst Hestlandsmeistaramótið í kubb. Í báðum þessum mótum er keppt um veglega farandbikara. Skömmu áður en brandarakeppnin byrjaði sló Benóný í Draumi tölu á þá sem mættir voru á hátíðarsvæðið í Kinnhesti og taldi milli 120 og 130 manns. Þátttakendur í brandarakeppninni voru 16 að þessu sinni á aldrinum 3ja – 12 ára. Í dómnefnd voru  María á Maríubakka, formaður, ásamt Steindóri í Bóli og Alexander í Brekkukoti. Starfsmaður keppninnar og stigavörður var Edda í Brekkukoti. Keppnin var að vanda afar skemmtileg og margir eftirminnilegir brandarar sagðir með viðeigandi tilþrifum. Fólk á miðjum aldri gladdist sérstaklega að heyra aftur brandarann um strákinn Buxur sem vinsæll var fyrir um þrjátíu árum. Eftir tvísýna keppni var það niðurstaða dómnefndar að Elín Alma, 11 ára Hlíðarendasnót, hefði verið hlutskörpust og fékk hún Rugguhestinn til varðveislu næsta ár. Fast á hæla henni komu Halla Rakel í Æsu, 10 ára, og Fanney í Draumi, 12 ára. Nokkur vandamál voru með hljóðkerfið í brandarakeppninni en notaður var 15 w magnari.  Til athugunar er að nota magnarakerfið í golfskálanum en Hestlendingar eru meðeigendur í því. Vonandi standa hljóðmálin því til bóta.

Metþátttaka var í Hestlandsmeistaramótinu í kubbi en 27 lið skráðu sig til keppni að þessu sinni. Að vanda var leikið á fjórum keppnisvöllum. Mótsstjóri var Halldór í Kerlingagarði en dómarar voru Sigurður í Ásgarði, Alexander í Brekkukoti, Jón Karl í Reynihlíð og Róbert í Laufeyju. Að sjálfsögðu dæmdu dómarar ekki leiki liða frá eigin bæ. Ánægjulegt var að sjá hve vel sum liðin höfðu undirbúið sig, bæði hvað varðar búninga og leiktækni. Þá var almennt jöfn þátttaka barna og fullorðinna í keppnisliðum. Í sumum liðum voru þrjár kynslóðir; barn, foreldri og afi eða amma. Keppnin var snörp og hörð eins og vænta má í útsláttarmóti. Leikmenn voru samt prúðir og báru sig vel þó þeir biðu í lægra haldi. Það sýndi sig að æfing skiptir máli í kubb sem í öðrum íþróttum. Að lokinni æsispennandi lokasennu  stóð sveinalið Laufeyjar uppi sem sigurvegarar eftir að hafa sigrað lið Reynihlíðar í úrslitaleik. Í leik um þriðja sæti vann Klettasel harðsnúið kvennalið Parísar eftir einstaklega spennandi leik. Parísarbúar áttu sterkan stuðningsmannahóp sem hvatti lerikonurnar til dáða og hélt uppi góðum keppnisanda allt til loka. Þá voru Parísardömurnar í fallegum samstæðum búningum og fengu að launum búningaverðlaunin 2013.

Ása í Æsu og Elísabet á Staðarhóli sáu um veitingar strax að brandarakeppninni lokinni. Boðið var uppá gos og grillaðar pulsur. Var það vel þegið af keppendum í kubbamótinu að fá gos og eitthvað í svanginn á milli leikja.

Veður var ágætt um eftirmiðdaginn, nokkur vindur af norðri og nokkrir dropar öðru hvoru án þess að hægt væri að tala um rigningu. Lofthiti var um 14 gráður. Um kvöldið lægði og birti og varð veður þá eins gott og hugsast gat.  Um kvöldið safnaðist fólk saman við varðeldinn og voru þar samankomin um 150 manns. Kveikt var í varðeldinum kl. 22:00. Nokkru eftir að kveikt hafði verið í varðeldinum ávarpaði umsjónarmaður árshátíðarinnar samkomuna og mælti fyrir minni formanns landeigendafélagsins, sem gat ekki verið á hátíðinni að þessu sinni. Að því loknu spilaði Garðar Garðarsson, trúbador kvöldsins, vinsæl brekkusönglög í stilltri sumarnóttinni við góðar undirtektir Hestlendinga og árshátíðargesta þeirra.

Benóný og Jenetta í Draumi týndu saman flöskur á sunnudagsmorgni en eftir hádegi komu Halldór og Ólína í Kerlingagarði og aðstoðuðu þau Jenettu og Benóný við að taka til í geymslu og ganga frá rusli.

Að lokum er rétt að þakka öllum þeim fjölmörgu sem aðstoðuðu við undirbúning og framkvæmd árshátíðarinnar með von um að Hestlendingar og gestir þeirra hafi skemmt sér vel í leik og söng.

Kveðja,

Halldór í Kerlingagarði.