Vísur frá Þorrablóti Hestlendinga 2014
Í þorrablótsnefnd sátu:
Hrafnhildur Geirsdóttir og Ottó Þormar í Hvíta húsinu
Ingibjörg Sólrún Magnúsdóttir og Þorleifur Ragnarsson í Albatros
Skúli Kristjánsson og Guðbjörg Sigurðardóttir í Sjónarhóli/Bláhimni
Vilborg Pétursdóttir og Hafþór Harðarson í Mósel
Guðbjörg Sigurðardóttir skráði vísur/ljóð eftir bestu getu af miðum úr vísnahatti!
Villur tilkynnist vefsíðustjóra til leiðréttingar.
Hestmýri
Fimm sumar-sælu vikur hér ég dvaldi
þá sótti að mér rigning, rok og kaldi,
úr golfi varð því lítið
er sumum þótti skrítið,
mig rauðnefjaðan kuldahrollur kvaldi.
Rogginn samt ég ruddist út um grund
rótaði upp beðum, bjó til lund,
epl´ og kirsuber
og perur verða hér,
í garðinum ég átti góða stund.
Vart mun skógur vaxa yfir okkur,
voldug sög og ég, já þessi skrokkur
höldum trjám í skefjum,
snyrtum, örmum vefjum,
lítið glas að launum, jafnvel nokkur!
Í heitan pott er huggulegt að sökkva
hlust´ á fuglasöng er fer að rökkva,
já, iðrin líka bleyta!
þá líður burt öll þreyta.
Norðurljós og stjörnur himinn skreyta.
Kerlingargarður
Höfundur: Gylfi Jónsson prestur
Ljúfar krásir líta má
lifnar yfir presti
þegar hann mætir þreyttur á
þorrablót í Hesti.
Kerlingagarður
Höfundur: Bjarni Guðmundsson
Enn eitt blótið í Hesti
og alltaf er Halldór í vesti.
Skálar við gesti,
sem snæða súrt nesti.
Síðan er valinn hatturinn besti.
Skáldin yrkja limrur og önnur ljóð,
sem lenda í hattinum, sum mjög góð.
Halldór skálar í Hesti
úr hatti er svo dreginn kviðlingur besti.
Hestlandssvörðinn hylur snjór,
hálka á vegum í Hesti.
Kyrjar sönglög kántríkór
í Kiðabergsskála með presti.
Brekkukot
Í Brekkukoti er brjálað fjör
en bara um helgar
af ýmsum þjóðum eru pör
Íslendingar, Frakkar en engir Belgar.
Kerlingagarður
Höfundur: Halldór Júlíusson
Þökk sé guði þennan fund
á Þorra að fagna gesti.
Þó hrærist jörð og hristist grund
mitt hreiður er í Hesti.
Kerlingagarður
Höfundur: Halldór Júlíusson
Gekk ég á Hestfjall
í hópi vina.
Tyllti á fjallstind
titrandi fæti.
Leit ég sveitir
sumri grónar.
Sá í suðri
sól í heiði.
Staðarhóll
Á Staðarhóli rís hjá fur´og reynum
Bústaður með stíl og línum beinum.
(Það hefur varla farið framhjá neinum).
Hjónin sátt
hefja brátt
búskap í Enn Einum.
Óþekktur höfundur (gefi sig fram við vefstjóra)
Tréin sligast undan snjónum,
fegurðin einstök í myrkrinu.
Ljósið kemur með bræðrunum Long
þeir smíða slaufur sem fljúga
en betri helmingarnir prjóna húfur sem brosa.
Gaularás
Sunnudagssíðdegi, við Liv
- erum síðust úr landinu.
Sólin er sigin undir Flóann.
Við stoppum við hliðið.
Síminn er tómur og fjarstýringin týnd.
Stöngin er pikkföst og læst.
Hvað næst, jesús kræst.
Hlíð
Við hliðið bíð ég þolinmóð
ó elsku Haddi minn.
Ég held ég verði alveg óð
ef kemst ég ekki inn.
Ég stend og veifa títt og ótt
en enginn sér til mín.
Æ hringdu Haddi, hringdu fljótt
svo komist ég til þín.
En Hestland alveg lokað er
og enginn fara má
um landið – sá er vogar sér
er settur beint á skrá.
Í einsemd öll við sitjum hér
því allir fara hjá.
Nú burt með hliðið viljum vér
svo fáum gesti að sjá.
Laufey
Ég hönd á flösku festi,
fríska ávarpa gesti.
Af lífi og sál
nú segjum skál
og höldum blót að Hesti.
Í Laufey eigum ljúfa stund,
þar lifnar yfir hal og sprund.
Á blóti að Hesti létt í lund
lífsins skulum njóta.
Laufey
Sælusveit, höfundur: Róbert B. Agnarsson
Sett saman í skyndiferð í Laufey í Hestlandi, miðvikudaginn 8. janúar 2014.
Skammdegið skekur nú huga
og skerpir ei lífsins neista.
Ei vil ég drepast, en duga
því dásemdir lífsins þær freista.
Í suðrinu sólin nú lýsir
og skýin í roðanum vaða.
Í sveitina sælu mig fýsir
sem gerir menn hressa og glaða.
Áin í andvara rennur
yndisleg læðist ´ún hljóð.
Sólin í suðrinu brennur
og sindrar á vatninu glóð.
Og gyllt standa stráin í haga,
strýkur þeim andvarinn blítt.
Lundina geislarnir laga
og landið er dásemdar frítt.
Hér vil ég ævinni eyða
við unað og rósemdar stund.
Líta til himins og heiða
og fá mér svo hamingjublund.
Ásgarður
Sólarlausa sumarið í Hesti.
Sæludrauma minningasjóður hinn mesti.
Rigning dag eftir dag.
Fólkið sælt með sinn hag.
Þoldi uppskerubrest á ber og ávexti.
Draumur
Í Draumi ég dvel með Benna
dýrðartími það er.
Þó ég stundum stelst til að renna
Stórborga til þeirra fer.
Við rukkun ég legg mig í líma
og legg svo aurinn inn,
en bilanir berast í síma
bæði í minn og þinn.
Panta þá handlaginn herra
hlutum að koma í stand.
Samt setur þá að mér hnerra
því sjóðinn minn rekur í strand.
EÓ
Draumur
Vináttan í Hestlandi
Vinátta okkar ótrúleg er.
Kynntist ég ykkur, sem betur fer.
Því án ykkar væri ég ekki neitt.
Allaveganna væri ég spik feit.
Þó við séum ekki alltaf sammála.
Og stundum hvort annað langar að kála.
Þá elskum við hvert annað ósköp heitt.
Og við þetta ljóð ég er orðin sveitt!