Vísur frá Þorrablóti Hestlendinga 2013

Í þorrablótsnefnd sátu:
María Björnsdóttir og Birgir Kristjánsson Maríubakka
Jónína S. Jónasdóttir og Þórður G. Ólafsson Kletti
Hrafnhildur Geirsdóttir og Ottó Þormar í Grindarhúsinu
Ingibjörg Sólrún Magnúsdóttir og Þorleifur Ragnarsson Albatros

Þórður G. Ólafsson skráði vísur/ljóð eftir bestu getu af miðum úr vísnahatti!
Villur tilkynnist vefsíðustjóra til leiðréttingar.



Hestmýri
Sæl, við skellum í oss guðaveigum
svo sannarlega, laus úr nefnd, við megum!
Nú vinum vorum með á blótið buðum
virkilega kát en enga stuðum.
Á árinu ég bætt´ ei golfsins list
en eiginkonuna hef meira kysst!
Við bárum bæð´á húsið sem og pallinn
já, býsna dugleg kellinginn og kallinn!
Skógar-sög var beitt á laufið hæst
svo stöðugt samband internetsins næst.
Ekki meira mas að þessu sinni
því mig nú skortir hugarflug og minni!
Skál!!!

Ból
Vor ábúð er indæl á Bólum
og oft þar við setjumst og dólum
í indælan pott
með útsýnið gott
himni undir með fjarlægum sólum.

Hann Steindór er bóndi á Bólum,
og býr þar á páskum og jólum.
Hann þráir sinn bjór,
því þorstinn er stór.
Hann þambar víst ölið úr skjólum.

Vor ábúð er indæl á Bólum
og oft þar við syngjum og gólum.
Vín bæði og öl
þá bæta vort böl.
Svo blótum við Þorra með fólum.

Grindarhúsið
Í Hestlandið við fórum
að sækja vini heim.
Það var ei aftur snúið
við vildum vera geim.

Leitað var nú lengi
að litlum sælureit.
Hér við vildum dvelja
og vorum orðin heit.

Þá grind við eina sáum
svo einmana og bera
Þá var lag að kaupana
og reyna að græja og gera.

Grindina við klæddum,
vel og undurfljótt.
Því er þetta viðundur
ekki lengur ljótt.

Ekki náðist samstaða
um nafn á okkar reit.
Á næsta blóti vonandi
verður nafn í sveit.

Laufey
Í Hesti er hljómurinn sleginn
og hamingjan lýsir oss veginn.
En handan við hlið
er oft helvítis bið,
eftir áttunda golfvallarteginn

En hliðið er hestlenskur tálmi
þeim sem hnupla og þrífast á fálmi.
Þeir komast ei inn,
inn í bústaðinn minn
þó þeir skakist, söngli og mjálmi.

Við dýrkum þig dýrlega hlið
þó djöfulleg sé oft vor bið.
En hún borgar sig best
fyrir blíðlyndan Hest,
og tryggir oss farsæld og frið.

Laufey
Hér bestu eru haldin blót
og bjórinn flestir kneyfa.
Að Hesti margan fiman fót
í fjöri gestir hreyfa.

Laufey??
Langt í Þorrann er víst enn
þó eins árs komi á fresti
En þolinmæði þrýtur menn
sem þjófstarta á Hesti

Draumur
Á föstudagskvöldum austur í sveit
ek ég og fylgi þá straumi
því ekkert í veröld ég fegurra veit
en fallega daga í Draumi.

Ein helgi í Draumi er heilsubót góð
hún bætir og lagar minn huga.
Ég kartöflur rækta og kál úti á lóð
í kræsingar mínar þær duga

Vesturás
Válynd veður, frost og drungi
vetrarríki við hvert ból.
Í Vesturási, ei sá þungi
eilíf blíða, logn og sól.

Ásgarður
Á góðum vetrardegi,
um malbikaða vegi,
með marga góða gesti
er gott að ganga í Hesti.

Kvistur
Þökkum nú vort þorrablót
og þessa fögru sveit.
Mega skemmtileg mannamót
og mannfólk frá hverjum reit.

París
Þorrablótið þreytum hér
það finnst okkur gaman.
Hestlendinga hátíð er,
við huggum okkur saman.

Reynihlíð
Það er háttur Hestlendinga
að hafa hrossið sér við hlið.
Við hliðið oft þeir lengi hanga
en enda alltaf upp á við.

Hlíð
Er dagur styttist, dimma fer
og dvínar sól,
löngun læðist yfir hér
að lýsa upp jól.

Árlegri vinnu er ýtt af stað
í erg og gríð,
hengd eru ljós á þak og hlað
heim´ í Hlíð.

Lýsa perur háar, lágar
ljómar bær,
gular rauðar grænar bláar
geisla þær.

Skæra loga og skrautið má
sjá um allt,
fellur birta fjallið á
þúsundfalt

Feikilega skrautleg, flott
og undur fríð,
lagleg eins og lítið slott
ljómar Hlíð.

Ljósin fram að þorra ljóma
lyftist sól,
aftur munu upp með sóma
um næstu jól.

Gaularás
Vísan farin fjandans til,
gengur ekki svona.
Henti mér í djúpan hyl
það ætla ég að vona.

Óþekktur höfundur (gefi sig fram)
Sólarlagið speglast
í gluggunum.
Tunglið hangir
eins og ljósapera
í trjánum.
Frúin heklar
við kertaljós og arineld
á meðan ráðsmaðurinn
borgar reikningana
í nýja æpadinum.

Sóltún
Sóltúnskofi, kamar, höll
kunna menn að segja.
Sagan sögð um víðan völl
vilja menn ekki bara þegja.

Brekkukot
Vísulaus ég lagði í langa ferð
og leiddist mér að yrkja þetta ljóð.
En þessi vísa er ljót og illa gerð
ekki man ég lengur hvað hér stóð.

Kerlingagarður
Er leikur um Hestland ljúfur þeyr
og lúpínan blánar meir og meir,
þá þykir mér sómi,
að sérhverju blómi,
sem tilbiður Guð sinn og deyr.