Þorravísur 2006

Þorravísur frá þorrablótinu 14.janúar 2006
Endurritað af allskonar sneplum og miðum frá Þorrablótinu, er með alla fyrirvara á að þetta sé rétt skrifað eftir mislæsilegum rithöndum.
Með bestu kveðju
Alexander í Brekkukoti  (prins Alex)

 

 Ásgarður

Vetur sumar vor og haust
vini fæ og gesti.
Dreymi draum ég endalaust 
dvalið geti í Hesti.

Gaularás

Komin er helgi yfir heiðina skal halda
Heim í Hestlandið hlýja og kalda.
Þar skal bara legið í leti
Og úðað í sig súrmeti og keti.

Hamrahlíð

Þrátt fyrir snjókomu og skafrenning
við skundum af stað á ný,
austur yfir heiðina
sömu gömlu leiðina
Hamrahlíðina í.

Höldum í heiðri háum
fornum siðum
súrum sviðum,
lunda-lifra-bagga-mör, 
hrúta hangikjötið
líf og fjör!

Heiðarsel

Saman sitja góðir vinir
spilamennsku við
í erfiðleikum Adamssynir
eru með kvenfólkið
í Heiðarseli. 

Í Heiðarseli höllin sú
há og glæst nú rís að framan,
svo Brúnastaðabændur nú
býsnast yfir öllu saman.

Hlíð

Önnu Rósu var kalt í gær
það karlar fengu að vita.
Að ei fengi sú fagra mær
frá Hadda nokkurn hita.

Hruni

Þung er sú kvöð að eiga að yrkja
um húsaskjól.
Þegar Hruni er hvorki kirkja 
né höfuðból.

Kerlingagarður

Í Kerlingagarði er sumar og sól,
þó syng´allir aðrir “Heims um ból”.
Frúnni finnst gott 
að fara í pott,
og vera nú aftur komin á ról.

Kvistur

Þar er vindur þar er regn
þar skín sólin stundum.
En það þykir mikil fregn
ef logn þar er á vinarfundum.

Einstaklega gott það er
að eiga spildu í Hesti.
Flottast er þar finnst þó mér
og fínt að vera í Kvisti.

Sómastaðir

Ættarfrómi okkar slot
öllum ljóma baði.
Mæra rómað má því kot
mikla Sómastaði.

Teigur

Mér finnst ansi sárt að sjá
sem er ekki nema von.
Skógarþresti skíta á 
skærraut timbrið lon og don. 

Þó mér sé stirt um stefið
stundum þessu samt ég flíka.
Á Teigi hefur Guð mér gefið
góðan bjór og koníak líka.

Tröð

Á Tröð við búum sko Gulla og ég
í brúnleitu sloti með þaki.
Og stofan er alls ekkert stórkarlaleg
en stásslega tjölduð með laki.

Ef þú ert leiður þá labbaðu inn
við lofum að gefa þér kleinu.
Og brosa úr þér kvíðann við borðstubbinn minn
og brátt sérð þú ekki eftir neinu.

Því austur á Tröð er lífið svo létt
og leiðindi öll bara í straffi.
Við dæmum þar ekkert hvað rangt er og rétt
en ráðleggjum kökur og kaffi.

Gestir á Þorrablótum Hestlendinga undanfarin ár hafa verið heiðurshjónin Einar og Hulda úr Kiðjabergi.
Eins og kunnugt er er Einar gjalkeri Golfklúbbsins og hefur þetta boð hjálpað heilmikið uppá að ná endum saman fyrir Þorrablótsnefndina, og ekki spillir að þau eru líka skemmtilegir gestir. 
Að þessu sinni ortu þau eins og aðrir þessa ágætu vísu:

Þorrablótið þetta sýnir
að þið eruð laus við sút og erg.
Verið ávallt vinir mínir
velkominir í ...  Carlsberg 
ég meina .....   Kiðjaberg. 

 

Brekkukot

(lag: Saga úr sveitinni)

Til Danmerkur drottningin fór
þar drottningar töluðu í kór
Um daginn og veginn og níunda teiginn
og allt sem þær þurftu var ..bjór.

Þær töluðu saman um kóngsríkin sín, 
og hvernig best væri að brugga rauðvín.

En Brekkukots-vínið er gott
og kóróna Möggu var flott.
Þær ákváðu að fræðast
um Hestlandið kærast
næst yrði það Brekkukots-slot

Þær töluðu saman um kóngsríkin sín, 
og hvernig best væri að brugga rauðvín.

Heiðarhvammur

Þegar úti er frost og funi
feikivel ég hér mér uni
Í Heiðarhvamm um helgar mæti
hlæ og nágranna mína kæti.
Helgarinnar hér ég ætla að njóta
hella uppá og Þorra blóta.
Verst hvað vikurnar fljótar þjóta
en samt það er mér líka í hag
því það styttist í heilagan konudag.
Þá við getum verið með gáska
því þá styttist í að skála um páska.
Og ekki göngum við um gleðinnar dyr hljótt
því næst á dagskrá er Jónsmessunótt.
Og ekki er þá nokkurt þras
því við fáum okkur öll í glas.
Og ætli ég ykkur um uggana velgi
þegar kemur að verslunarmannahelgi.
Þá verður hér við Hestfjall kátt 
og við höfum rosalega hátt.
Og fáum okkur kannski...bjór
því þessi helgi er voða stór.
En næst á dagskrá er að fá sér kjól
af því að aftur eru að koma jól.
Þá ég líkist litlum krakka
í glugga mína seríu hengi
og máske litla Ella flengi.
Verst hvað árin frá mér þjóta
því nú ég aftur Þorra blóta.
Öll við sem hér í Hesti búum
Saman okkar bökum snúum
Í brjóstum okkar tendrum bál
fyllum glösin og segjum “HESTASKÁL”

Klettasel

Undir hömrum er lítil höll
þar hafa hjónin einka golfvöll
Í Klettaseli búa Kata og Bragi,
búskapurinn er þar sko í lagi.

Sjónarhóll

Svona um það bil viku´eftir jól
er skundað á Sjónarhól
í skálann er haldið skjótt
og Þorranum blótað fram á rauða nótt.

(lag: Það var kátt hérna um laugardagskvöldið á Gili)

Það er kátt hérna á laugardagskvöldi í Hesti
þegar blóta skal Þorra með braki og bresti.
Þar til svæfir oss nóttin svo blíð.
Þar er Ása úr Æsu með harðfisk í næði
og Gulla og Biggi sem brosa´út í bæði
og þau Anna og Haddi í Hlíð.
Svo er etið og drukkið og mörg vísan sungin,
á meðan við innbyrðum indælis punginn
þá er haldið í bólið á ný.
Svo aftur að ári er enn komið saman
því ekkert í heimi er álíka gaman
og Þorrablót skálanum í.

Skriðan
Ég yrki í belg og biðu,
því bústað skal reisa í Skriðu.
Skúli mun skálann smíða
sem sunnlenska sveit mun príða. (BG)

Í Kerlingagarði kætist fólk
og kemst í heitan pott.
Þar ætlar enginn að drekka mjólk
því áfengi er svo gott. (BG) 

Í Kerlingagarði finnst mér flott
að fara í heitan pott.
Undir Hestfjalli, hérna við ána
er himneskt að fá sér í tána
og háma í sig grillkjöt gott. (BG)

Vesturás

Í Vesturási er gott að vera
viljum saman una hér.
Úti alltaf nóg að gera
vinna, starfa og leika sér.

Víðsýnið úr Vesturási
virðist flestum líka hér.
Návista við njóta viljum
náttúruna höfum hér.

Æsa

Í seðlaflóði seinni ára,
öllum nöfnum þarf að breyta,
og ekki sleppa kot útnára
“Æsa- grúpp” skal hún heita.