Þorravísur 2000

  Ljóðasamkeppni á Þorrablóti 

        Landeigendafélags Hests 15. janúar


1.   Hamrahlíð                     2. Kvistur                        3.   Ásgarður 
 4.   Æsa                               5.  Bær                            6.   Heiðarsel 
 7.   Sjónarhóll                      8.  Hlíð                           9.  Hlíðarendi 
      10.  Klettasel                        11. Gaularás                  12.  Kerlingagarður 
     13.  Sunnuhlíð 

 



Hamrahlíð

Í Hamrahlíð er gott að vera 

allt árið um kring. 

Þar er alltaf margt að gera 

gönguferð eða golfhring.




Ásgarður


Í Hestland er gott að flýja 

burt frá borgarstressinu. 

Í Ásgarði er ávallt hlýja 

og Siggi í essinu.


Þeysi ég á þorrablót á Hesti

þangað tek ég konu, bjór og gesti 

mannfögnuður verður þar hinn besti 

menn og konur sýna kosti sína og lesti.




Bær


Við bakkann Bær vor stendur 

við þekkjum ei betri stað. 

Nú karlinn er orðinn kenndur 

og kerla hans veit allt um það.


 


Sjónarhóll


Á Sjónarhól vindarnir svipta 

sér hring eftir hring sem sigaunapils 

samt mun ég aldrei í lífinu skipta 

á því, og villu í Beverly Hills.




Hlíð


Á hlaðinu stóðu Hlíðarhjón 

Haddi og hans kona 

þetta hefði orðið þvílíkt tjón 

það munaði bara svona!


Forðum átti fagra Hlíð 

og fjallsins auð 

yljar minning björt og blíð 

er bregð mér á Rauð.




Klettasel


Í Hestlandi ég drauma staðinn leit 

landið, fjallið,  áin, ekkert fegurra ég veit. 

Fólkið er sérstakt, alveg einstök sveit 

hér allir aðrir eiga líka fallegastann reit.




Kerlingagarður


Er vindur blæs og bítur kinn 

birta þverr og dofnar sinn 

hugsa ég – og huggun finn 

um Hestland – sælureitinn minn.




Hlíðarendi


Þegar næða vetrar vindar 

veitir huga Hestland yl 

áin hvíta og efstu tindar 

etja kapp við hríðar byl.


Landið klæðist hvítri kápu 

á kafi laut, í leyni gil 

yrkja lengri dagar drápu 

og dreymir vors og vetrar skil.




Gaularás


Í Hestlandi hvert húsið af öðru rís 

og himneskt streymir vatnið úr Bunu og aldrei það frís 

tveir höfðingjar þar stýra 

þrýstingi vatns og félags lon og don 

Halldór Leifs og Júlíusson.




Æsa


Krapið flýtur fjúkið blæs 

framtíðin breikkar sporið 

flýgur með ánni einbeitt gæs 

- Æsa stefnir í vorið -


 

Kvistur

Byggt var ból í brekkunni 

ber nú mafnið Kvistur. 

Kúrir þar með konunni 

karl sem oft er þyrstur.


Þyrstir þar í vatnið góða 

þótt annað sé nú oftast til. 

En gaman er að fá sér bjóra 

á hvejum degi hér um bil.


 


Heiðarsel


Brosir mitt hjarta, brosir mín sál 

blasir mér fegurðin við. 

Úr Hestlandshlíðum kvöldsins bál 

Hvítá í rauðum sólareldi 

rétt sem í æðri máttarveldi.


Í kvöldsins húmi, kyrrðin sem silkiklæði 

kurrandi rjúpan í móanum gengur. 

Ó, hvað ég vildi að kyrr tíminn stæði 

svo unaðsleik landsins í fullkomnu næði. 

Ég fengi að njóta hér svolítið lengur.




Sunnuhlíð


Urð og grjót 

uppí mót 

lítilsháttar urð og grjót. 

Snotrar skriður 

háa kletta 

líttu niður 

hvað er þetta? 

Grasi grónar hlíðar brosa 

þétt þær eru vaxnar mosa. 

Hjarna langar mig að byggja, 

Í snarhasti mér lóð að tryggja. 

Sækja um leyfi, 

láta teikna, 

panta timbur grafa þróna. 

Ráma allt í einu í Drottinn, 

 -elsku Drottinn- 

láttu renna í heita pottinn. 

Þér ég lofa að vernda landið, 

rækta tré og drýgja blandið. 

Mæta þorrablótin á 

og brennubálin fara að sjá, 

Ef að forsjón undurblíð 

úthlutar mér Sunnuhlíð.


Hreykja sér á hæsta hólinn 

tak´út tólin. 

Líta yfir lendur víðar. 

Það má svo sem  skoða síðar. 

Standa síðan upp  og rápa 

Glápa. 

Rifja upp og reyn´ að muna…… 

Hver býr þarna, 

- hvað skal gera ? 

Hrópar á mig sumarhöllin, 

þú skalt mála 

þú skalt negla, 

en ég fer bara samt á völlinn, 

að spila golf og skemmta mér. 

Samviskan mig kannski plagar 

eða nagar. 

Náttúran svo undurblíð 

bíður mín í “SUNNUHLÍД.