Örnefni í Hesti og Hestfjalli í Grímsnesi
á skrá hjá Örnefnastofnun
1. Hestfjall:
Örnefni skráð af Gunnlaugi Þorsteinssyni hreppstjóra og bónda á Kiðjabergi, dags. 3. marz 1929.
2. Hestfjall:
Viðbætur og athugasemdir Halldórs Gunnlaugssonar, hreppstjóri og bóndi á Kiðjabergi, dags. 17. júlí 1974.
3. Örnefnaskrá:
Stafrófsskrá örnefna.
1. Hestfjall
Fjall þetta er að mestu umflotið vötnum, Hvítá (1) að sunnan og vestan, svo 600 faðma eiði frá Hvítá í Hestvatn (2), sem svo ræður að norðan. Úr því rennur hinn forni Hestlækur fyrir austan, sem liggur austur í Hvítá. Nú er Hestlækur hinn forni þornaður að mestu, og hefur Hestvatn brotið sér skemmri farveg austur í Hvítá, og er það útfall síðan nefnt Slauka, án þess menn viti, hvar af það nafn er dregið. Farvegur þessi hefur myndast snemma á landnámstíð, því í Landnámu er þess getið, að Oddur landnámsmaður á Kiðjabergi hafí fallið við Hestlæk. Þessi Slauka er eina útfallið úr Hestvatni, og er það svo lárétt, að Hvítá rennur út og inn í Hestvatn eftir vatnsmegni [svo í handr.] í henni. Vað er þar yfir á eyrunum út í ánni, annars mikið dýpi, þar sem grasbakkar liggja að.
Hestvatn er langt og vogskorið að norðan. Þykir nóg riðið á 3/4 tíma enda á milli, þegar ís er. Dýpt þess er mest undir háfjallinu, 40 faðmar. Á eiðinu frá Hestvatni og niður að Hvítá var til forna öflugur vörslu-garður frá biskupstíð í Skálholti, og sjást merki hans á háeiðinu. Um aldur þessa garðs er ekki vitað, en í tíð Brynjólfs Sveinssonar biskups lögfestir hann Hestfjall undir stólinn með sögðum merkjum árið 1666 og er lagt bændum á herðar að umbæta garðinn, sem þá var ekki orðinn gripheldur. Fjallið var þá notað frá stólnum fyrir stóðhross árið um kring. Svo fengu nágrannabændur leyfi til að reka á fjallið tiltekna tölu af lömbum og öðru sauðfé yfir sumartímann fyrir tiltekið gjald.
Þessi framanskrifuð lögfesta var í þingfundarins heyrn upplesin að Borg í Grímsnesi, settu manntalsþingi 12. maí 1666, til merkis vorar undirskriftir, Jón Vigfússon eldri og svo lögþingsvottar með sýslumanni. Einnig lögfestir Finnur biskup Hestfjall árið 1769 og síðan Hannes biskup 22. maí 1788 og þá sem sína eign. En 19. apríl 1846 selur biskupsfrú Valgerður Jónsdóttir Hestfjall Hreini Guðlaugssyni, bónda á Króki í Biskupstungum, síðar bónda á Vatnsnesi og Sperðli í Landeyjum, fyrir 220 ríkisbankadali.
Örnefni [í] Hestfjalli, sem mörg benda til, að fjallið hafi verið eftir lögun sinni kallað Hestfjall, eru eftirfylgjandi: Snoppa (3) og Snoppudalur (4). Hesteyru (5), Einstígur (6) í Snoppudal. Ópugil (7), tröllkonunafn. Bakseyru (8), Enni (9), Eiturhóll (10), eitrað fyrir refi, Lambabollar *1 (11). Hreinstótt (12), austan í Móklapparnefi (13) útí Hvítá. Hestablettur *1 (14). Krúmibrekkur *1 (15). Trantur (16). Söðulbrekkur (17). Bót (18). Miðtangi (19). Vegskarð (20) upp á fjalli. Stórkonubátur (21), klöpp út í Hvítá. Kerlingagil (22) og Langahlíð (23). Loftvörðubrún (24).
Krossgil (25), djúpt gil frá Hvítá og myndar kross að ofan. Hestatorfur (26), þar sem lengst hagar fyrir stóðið. Hrafnsgjögur (27), Skersli (28) og Skerslgil (29). Bleikáluhóll (30) á börðunum í vestri, féll þar síðasta hrossið sem hét Bleikála. Endabrekkur (31). Lambastekkur (32). Torfgil (33).
Dekkið (34), þar eru að sjá tvö leiði, Leiðin (35). Þar áttu að vera jarðaðir síðustu ábúendur á Vindheimum (36), sem þar eru rétt hjá. Í Vindheimum skiptast áttir, hefur maður vindinn í bakið þangað, svo á litlum bletti logn, svo mótvind úr því.
Skjólhólar (37). Arnargnípa (38)og –gil (39). Teningur (40) klettur ca. 3 álnir á hvorn veg. Grásteinn (41) og Grásteinsheiðar (42). Þvottalágar (43).
Bærinn Hestur (44) var fyrst byggður 1850, umgirt tún, að mestu slétt. Þar var byggt í rúm 70 ár. Vaðmýri (45) niður að Hvítá. Þar hefur verið til forna vað yfir ána og er að líkindum enn, því fyrir 30 árum var frá Hesti farið yfir ána með reiðingshesta. Mónef (46). Vörðuás (47). Laug (48), þar steypt baðþró fyrir sauðfé. Laugarás (49). Mómýri (50). Stekkjarhamar (51), áður stekkatún frá Kiðjabergi, nú er þar fjárhús. Gvendarborð (52). Vatnsbotn (53). Kríutangi (54) út í Hestvatn, þar verpir himbrimi árlega. Skollhóll (55), þar eitrað áður.
Gölturinn (56), hvítur, stór mosaklettur í miðri hlíð niður að vatninu. Sagt, að bærinn Göltur beri nafn af kletti þessum, þaðan líkist hann liggjandi gelti.
Urriðamöl (57) og Bleikjumöl (58), þar lögð netin að haustinu. Pálsvarða (59). Ófæruhóll (60). Þrengsli (61) og Þrengslahóll(62). Þar eru landamörk milli Vatnsness og Gíslastaða (63). Kjóamelur (64). Feldarvík (65), þar upp af í fjallsbrúninni tveir Hrútadalir (66), slægjupláss. Þar fram af Kvígumúli (67). Dagmálaheiði (68), dagmörk frá Hesti.
Orustuhóll (69) og Orustudalur (70), þar hafði verið varist. Þar inn af Hestdalur (73) og Mjóidalur (72), sem nær upp að Hesteyrum. Þverbrekkur (73). Hrafnhóll (74). Fögurhlíð *1 (75). Gjáin (76), austan til á miðju fjalli við götuna, sprunga í klöpp, rúml. 2 faðmar á lengd og 5 álna djúp.
Vatnsheiði (77) vestur af aðalfjallinu, tölverð flatneskja, með víði og vallendisbollum, áður kallað Hestháls (78). Gata liggur frá Vatnsnesi og Hesti þvert yfir fjallið niður í áður nefnt Vegarskarð að bænum Gíslastöðum, sem var tekinn til ábúðar 1849 og er enn í byggð. Þar var um tíma lögferja, en er nú lögð niður. Vallensisslægjur fylgja hér og hvar í nefndum dölum og utan með brúnum, einnig áveitustykki í hamratungu, sem keypt var undir býlið, og liggur það austur af hinum forna hestlæk.
Árið 1851 var, sökum ágreinings milli Hests og Gíslastaða, af sýslumanni gjörð áreið á þess mörk, þannig skráð: Frá hvítá að vestan há Bleikáluhól, beint í norður á fjallsbrúnina við Hestvatn fyrir vestan Hrútadali, þar hlaðin varða og klappað á slétta klöpp ártalið 1851. Eiga því Gíslastaðir veiðirétt bæði í Hestvatní og Hvítá, þó lítið hafí það verið stundað á síðustu árum.
Þess má að lokum geta, að þessi tvö nefndu nýbýli í Hestfjalli byggðu þeir Gísli Guðmundsson, fæddur 1799, faðir Lofts í Vatnsnesi. Kom hann þangað utan af Selvogsheiði frá þriggja ára nýbýli sínu þar, sem hann yfirgaf sökum sandfoks, flutti svo og hýsti upp Gíslastaði, sem hann byggði í svonefndri Bót.
Að Hesti kom Ólafur Eyjólfsson austan úr Háfshverfí, fæddur 1789. Girti hann allt túnið eða túnstæðið með sniddugarði, sem síðar var settur gaddavír ofan á. Varði hann túnið fyrir moldarrennsli með skurði, þar sést enn fyrir gömlum stekkjargörðum frá ómunatíð, þá notað af bóndanum á Kiðjabergi, sem næstur lá.
Framanskráð örnefni í Hestfjalli er afrit af eiginhandarriti Gunnlaugs Þorsteinssonar hreppstjóra á Kiðjabergi, til mín komið frá honum 3. marz 1929.
Maí 1971
Gísli Guðmundsson frá Björk
(sign.)
*1 Svo í hdr. G.G.; sjá viðbætur.
2. Hestfjall
Viðbætur og athugasemdir
Örnefnaskrá Gunnlaugs Þorsteinssonar las Þórhallur Vilmundarson fyrir Halldór Gunnlaugsson 17. júlí 1974 að Kiðjabergi og skráði viðbætur og athugasemdir.Snoppa (3) er norðasta klettabeltið á Hestfjalli, og í því er Snoppudalur (4); upp úr honum er Einstígur (6). Hesteyru (5) eru hæsti toppurinn á fjallinu. Ópugil (7) er suðvestan Hesteyrna, djúpt og nær niður undir jafnsléttu. Nafnið stafar af útburðarvæli, sagði gamla fólkið. Í Ópugili er Eíturhóll (10). Sunnan og austan eyrnanna er hátt klettabelti, sem Bakseyru (8) heita. Lambapallar *1 (79) eru austan við Bakseyru.
Halldór kannast ekki við Enni (9). Hreinstótt (12), fjárhús, er nokkuð fram (suðaustur) af Bakseyrnabrekkunum (80), kennd við Hrein Guðlaugsson á 19. öld. Laxaklettar (81) eru beint niður af Bakseyrum. Svo kemur Móklapparnef (13) við ána. Þar var frægasti veiðistaður á Gíslastöðum, með berghaldi. Hestaklettar *2 (82) eru fremst í Bótinni (18), sveignum frá því framan við Bakseyru og fram undir Loftsvörðubrún *3 (24).
Kríubrekkur *4 (83) eru beint austur af Hestaklettum. Trantur er grjótbálkur syðst á brúninni yfir Kríubrekkum. Fram af Trantinum tekur við sléttur mói og þá gil mikið, Krossgil (25). Er það í einu lagi frá ánni, en kvíslast síðan í tvær greinar, sem mynda kross. Og þegar þá er komið upp vestur fyrir Krossgilið, taka við Söðulbrekkur (17). Stóravarða (84) er á hárri hæð, þar sem Söðulbrekkur enda. Fagrahlíð *5 (85) er norðvestur af Stórvörðu.
Stórkonubátur (21) er norðan við Krossgilið. Kerlingargil (22) er aðeins fyrir sunnan túnið á Gíslastöðum. Óvíst er um uppruna þess nafns. Þar er Stekkur (86) og Stekkjarbrekka (87), sunnan við Kerlingargil. Langahlíð (23) byrjar beint suður af Bótarbrekkum (88) og nær suður undir Söðulbrekkur.
Loftsvörðubrún (24) liggur eins og Langahlíð, neðan við hana. Loftsvarða (89) er e.t.v. kennd við Loft í Vatnsnesi. Hestatorfur (26) eru sunnan Krossgils. Hrafnsgjögur (27) er vestara gjögrið af tveimur sunnan við Krossgil undir háum standi. Þar stóð fjöldi fjár í harðindum. Skersl (28) eru mosaþembur vestan Skerslagils (29), en ofar eru Skerslabrúnir (90). Bleikáluhóll (30) er beint upp af Skyrgili (91), sem er um 10 mínútna gang neðan við Skerslagil. Óvíst er um uppruna nafnsins Skyrgil.
Endabrekkur (31) eru sunnan í Hestfjalli. Innbrekkur (92) heita út að Torfgili (33), sem er um klukkutíma gang frá Kiðjabergi, en hálftíma gang frá Hesti. Lambabyrgi (93) eru skammt frá Bleikáluhól austan við Endabrekkur; enn sést fyrir þeim. Halldór kannast ekki við Lambabrekkur (32). Dekkið (34) er pallur utan við Torfgil.
Vindheimar (36) eru klettar með tóttum framan í, og voru þar fjárhús frá Hesti. Sagt er, að hjón hafi búið þar, farið til bæna í Hjálmholti og drukknað í ánni. Ekki er þetta örugglega bæjarrústir. Skjólhólar (37) eru beint sunnan við Vindheima, alveg niður að ánni. Nokkru vestar en Skjólhólar er Arnarnípa (38) [í eldri skrá -gnípa] og Arnarnípugil (39), sem nær upp úr. Þar er Stóristeinn (94) eða Teningur (40) undir brekkunum vestan við gilið. Vestan við Arnarnípugil taka við Grásteinsheiðar (42) og á þeim Grásteinn (41). Þvottalágar (43) eru beint niður af Hesttúninu.
Mónef skagar út í ána aðeins vestan við bæinn Hest. Mógil (95) er nokkru vestan við Mónef. Síðan er Hestamýri (96) að Vörðuási (47), sem nær niður undir á. Stekkjarhamar (51) er vestasta brúnin á Hestfjalli. Vatnsbotn (53) er botn Hestvatns við Kríutanga (54). Halldór þekkir ekki Gvendarborð (52). Skollhóll (55) er upp af Kríutanga.
Urriðavör (97) ekki Urriðamöl (57), er innan við Kríutanga, um 1 km þaðan; þar er ekki möl í fjöru. Aftur hét Bleikjumöl (58) um 40-50 föðmum austar, og er tangi á milli.
Pálsvarða (59) er aðeins vestar en Bleikjumöl; óvíst er um uppruna nafnsins. Ófæruhóll (60) er aðeins austan við Bleikjumalar. Áður var ófært með hesta framan undir hólnum.
Þrengsli (61) eru frá mörkum Vatnsness og Gíslastaða og fram í Feldarvík (65). Halldór kann ekki skýringu á því nafni. Þengslin enda við Þrengslahól (62), og eru mörkin um hann. Kjóamelur (64) er austan við Stekkjarhamarinn, þegar upp er komið Vatnsheiðina (77).
Hrútadalirnir (66) eru tveir: Stóri- (98) og Litli-Hrútadalur (99). Þar uppi á brún, sennilega upp af Litla-Hrútadal, er markahella með ártalinu 1851. Kvígumúli (67) er framan við Hrútadali. Þar endar fjallshæðin.
Dagmálaheiði (68) er austar en Hestur uppi á fjallinu. Fyrir austan Kvígumúla er heiði. Þegar henni sleppir, tekur við Hestdalur (71). Fram (suður) af honum er Orustudalur (70), og upp af Orustudal er Orustuhóll (69). Upp af Hestdal er Langidalur (100) eða Mjóidalur (72). Nær hann upp á móts við Þverbrekkur (73), suðvestur af Bakseyrum, utan í Þverbrekknaás (101). Hrafnhóll (74) er kortérs gang suðvestur frá Þverbrekknaás.
Gjáin (76) er við veginn, sem liggur meðfram Fögruhlíðinni. Vegur lá frá Gíslastöðum upp Vegskarð (20), þaðan upp á efstu brún, síðan til vesturs og þá suðvesturs fram hjá Fögruhlíð um Orustudal út á Dagmálaheiði niður Austurstíg (102), sem er skarð í brúninni, að Hesti. Klukkutíma ferð var á milli brúna, en hálfsannarstíma ferð milli bæja.
Vesturstígur (103) er vestasti stígurinn upp fjallið austan Stekkjarhamars. Halldór kallar Hestháls (104) klettana vestur af Arnarnípugili.
Reykjavík, 18.júlí 1974.
Þórhallur Vilmundarson
*1 Lambabollar í hdr. G.O.
*2 Hestablettur í hdr. G.G.
*3 Loftvörðubrún í hdr. G.G.
*4 Krúnubrekkur í hdr. G.G.
*5 Fögurhlíð í hdr. G.G.
Örnefaaskrá
Stafrófsskrá örnefna
Arnargnípa 38 | [Arnargnípu]-gil 39 | Austurstígur 102 |
Bakseyrnabrekkur 80 | Bakseyru 8 | Bleikáluhóll 30 |
Bleikjumöl 58 | Bót 18 | Bótarbrekkur 88 |
Dagmálaheiði 68 | Dekkið 34 | Einstígur 6 |
Eiturhóll 10 | Endabrekkur 31 | Enni 9 |
Fagurhlíð 85 | Feldarvík 65 | Fögurvík 75 |
Gíslastaðir 63 | Gjáin 76 | Grásteinn 41 |
Grásteinsheiðar 42 | Gvendarborð 52 | Gölturinn 56 |
Hestablettur 14 | Hestaklettar 82 | Hestatorfur 26 |
Hesteyru 5 | Hestháls 78 | Hestháls 104 |
Hestur 44 | Hestvatn 2 | Hrafhhóll 74 |
Hrafnsgjögur 27 | Hreinstótt 74 | Hrútadalir 66 |
Hrútadalur, Litli- 99 | Hrútadalur, Stóri- 98 | Hvítá 1 |
Innbrekkur 92 | Kerlingargil 22 | Kjóamelur 64 |
Kríubrekkur 83 | Kríutangi 54 | Krossgil 25 |
Krúnubrekkur 15 | Kvíguhóll 15 | Kvígumúli 67 |
Lambabollar 11 | Lambabyrgi 93 | Lambapallar 79 |
Langidalur 100=72 | Langahlíð 23 | Laug 48 |
Laugarás 49 | Laxaklettar 81 | Leiðin 35 |
Litli-Hrútadalur 99 | Loftsvarða 89 | Loftvörðubrún 24 |
Miðtangi 19 | Mjóidalur 72 | Mógil 95 |
Móklapparnef 13 | Mómýri 50 | Mónef 46 |
Ófæruhóll 60 | Ópugil 7 | Orustudalur 70 |
Orustuhóll 69 | Pálsvarða 59 | Skerslabrúnir 90 |
Skerslagil 29 | Skersli 28 | Skjólhólar 37 |
Skollhóll 55 | Skyrgil 91 | Snoppa 3 |
Snoppudalur 4 | Stekkjarbrekka 87 | Stekkjarhamar 51 |
Stekkur 86 | Stórkonubátur 21 | Stóravarða 84 |
Stóri-Hrútadalur 98 | Söðulbrekkur 17 | Teningur 40 |
Torfgil 33 | Trantur 16 | Urriðamöl 57 |
Urriðavör 97 | Vaðmýri 45 | Vatnsbotn 53 |
Vatnsheiði 77 | Vegskarð 20 | Vesturstígur 103 |
Vindheimar 36 | Vörðuás 47 | Þrengslahóll 62 |
Þrengsli 61 | Þverbrekknaás 101 | Þverbrekkur 73 |
Þvottalágar 43 |