F O L A L D I Ð
Fréttabréf landeigendafélags Hests í Grímsnesi
1. tbl. 8. árg. Apríl 2000

___________________________________________

Gleðilegt sumar.
Eftir langan vetur er lóan nú komin og er í óða önn að kveða burt snjóinn í Hesti. Nokkuð er um að tré hafi brotnað undan snjónum í vetur. Er sárt að horfa á slíkt en við getum í staðinn huggað okkur við það að lítið frost er í jörðu og allt útlit fyrir að skógræktarstörf geti hafist fyrr en ella af þeim sökum. Reyndar sást til fólks vera að stinga niður græðlingum í Hesti þegar enn lifðu tvær vikur af vetri. Er vonandi að upp af því spretti eitthvað annað en frostrósir.
Vatnsdælan brást í vor og hefur þurft að skipta henni út. Miðlunartankarnir hafa hins vegar virkað eins og skyldi.
Stjórn félagsins hefur ákveðið að koma upp tölvupóstlista og eru félagsmenn beðnir að senda upplýsingar um netfang sitt til: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. við fyrsta hentugt tækifæri. Jafnframt að upplýsa um breytingar á heimilisfangi, símanúmeri eða öðru sem við kemur félagsstarfinu. Með tölvupóstlista er hægt að koma mikilvægum upplýsingum, t.d. um færð, til félagsmanna á einfaldan og skjótvirkan hátt. Listinn mun þó aldrei leysa Folaldið af hólmi sem áfram verður málgagn félagsins.
Af félagsstörfum er það að segja að Þorrablótið tókst hið besta og á Þorrablótsnefndin þakkir skildar fyrir vel unnin störf. Var eftir því tekið hvað Hestlendingum hafði farið fram í vísnagerðinni frá fyrra ári. Aðalfundur félagsins verður haldinn í maí eins og lög gera ráð fyrir. Þá verður starfsdagur félagsins að vanda haldinn fyrsta laugardag í júní sem í ár er 3. júní. Er mæting í Kinnhesti kl. 13:00. Að lokum get ég svo upplýst að undirbúningur árshátíðarinnar um Verslunarmannahelgina er þegar hafinn.
Hittumst heil á aðalfundi.
Formaður

Aðalfundir Landeigendafélags Hests og vatnsveitunnar Bunu

verða haldnir miðvikudaginn 17. maí kl. 20:00 að Skipholti 70. Auk venjulegra aðalfundastarfa verða eftirtalin mál á dagskrá:
1. Kynning á störfum Örnefnanefndar. Jóhannes Long, formaður
2. Kynning á störfum Veganefndar. Sigurður Magnússon, form.

Stjórnir Hests og Bunu

Tæming á rotþró
Þeir sem vilja nýta sér magnafslátt og tæma rotþró sína í vor er bent á að hafa samband við undirritaðan í síma 551-4827 eða í tölvupóst: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..
Halldór