Greinargerð vegna skipulags á sumarhúsasvæði Hests  (1997) 
(birt með góðfúslegu leyfi Forverks ehf) 
með breytingum samþykktum 2007 sbr. skjal Skipulagsfulltrúa Uppsveita Árnessýslu dags. 24. apríl 2007


1.1  Eignarhald

    Jörðin Hestur í Grímsnesi og þau hlunnindi sem henni fylgja eru í óskiptri sameign erfingja Halldórs Gunnlaugssonar, að öðru leyti en því að hluta jarðarinnar hefur verið skipt í séreignarlönd.  Meðeignarsamningi, dags. 3. maí 1987, þinglýstum 19. júní 1987, ákveða eigendur jarðarinnar að skipta hluta af landi jarðarinnar í séreignarlönd, samkvæmt uppdrætti sem gerður var af Verkfræðistofunni Forverk.  Sama dag samþykktu landeigendur reglugerð varðandi sumarbústaðalönd á Hesti í Grímsnesi.  Eigendur sumarbústaðalanda á skipulögðu svæði hafa með sér félag.  Félagið heitir Hestur, kt. 600891-1389, og var stofnað 30. júní 1991. Eignaskiptasamningurinn, reglugerðin og samþykktir félagsins Hests eru fylgiskjöl með þessari greinargerð.

1.2    Skipulagssvæðið

    Sumarbústaðabyggðin takmarkast af jarðarmörkum Kiðjabergs og Hests að vestan, að norðan af Hestfjalli, að sunnan af Hvítá og að austan af svokölluðu Torfgili.   Samkvæmt áðurnefndri reglugerð eiga allir eigendur sumarbústaðalanda á svæðinu umferðar og útivistarrétt og leyfi til berjatínslu á hinu óskipta landi utan sumarbústaðabyggðarinnar.  Eingin veiðiréttindi fylgja sumarbústaðalöndunum.  Landinu hallar að mestu til suðvesturs að Hvítá.  Efsti hluti svæðisins er í 80-100 m hæð yfir sjó, en hæðin við bakka Hvítár er um 35 m yfir sjárvarmáli.  Landið er að mestu leyti gróið mólendi og mýrar.  Gott útsýni er frá svæðinu yfir Hvítá.

2.     Skipulagsskilmálar

2.1   Skipulagsuppdrættir

    Verkfræðistofan Forverk gerði uppdrætti í mælikvarða 1:2000 af sumarbústaðasvæðinu í júlí 1986.  Skipulagsuppdrættirnir eru gerðir eftir þessum uppdráttum á tölvutæku formi.  Lóðarmörk og veglínur eru reiknuð í landskerfi (Lambert, keiluvörpun). 
Yfirlitsuppdráttur, teikn. 01, í mælikvarðanum 1:10000 sýnir afmörkun skipulagða svæðisins í heild og afstöðu til næsta umhverfis, lóðaskiptingu og þá sumarbústaði, sem þegar hafa verið byggðir og sameiginleg svæði.  Deiliskipulagsuppdráttur, teikn. 02, í mælikvarðanum 1:2000, sýnir nánari útfærslu skipulags á svæðinu: lóðir, byggingalínur, göngustíga og vegi.  Ennfremur sýnir uppdrátturinn raflagnir, spennustöðvar og vatnslögn. 
    Þessar veitur eru þegar fyrir hendi.  Fastmerki til nota við staðsetningu lóðamarka o. fl. hafa verið sett niður.
    Yfirlitskort í mkv. 1:10000 sýnir landamerki lögbýlisins Hests og takmörk hins skipulagða sumarbústaðasvæðis.

2.2   Afmörkun sumarbústaðalóða

    Afmarka má lóðirnar með hornmerkjum eða trjágróðri, girðingar eru ekki leyfðar.  Gert er ráð fyrir að jörðin Hestur verði girt með heldri girðingu og er því ekki þörf á girðingu um einstakar lóðir.  Gert er ráð fyrir 135 lóðum.  Stærð lóðanna er í flestum tilfellum á bilinu 7000 til 10000 m2.  Landeigendur hafa látið staðsetja markapunkta allra lóðanna.

2.3   Staðsetning sumarbústaða og húsgerð

(Breytingar samþykktar 2007 eru feitletruð)

   Staðsetning húsa á lóð er frjáls innan byggingarreitsins, en byggingarreiturinn er oftast 15 m frá norðaustur og norðvestur mörkum og 25 m frá suðaustur og suðvestur mörkum. Við staðsetningu húss skal huga að hagkvæmni vegna lagna og aðkomu og að hús skyggi ekki á útsýni nærliggjandi bústaða. Hús skulu vera einnar hæðar og úr timbri eða öðru léttu byggingarefni. Steinsteypa er leyfileg í þeim tilgangi að laga húsin að landslagi. Við litaval bústaða skal miða við jarðliti og þök skulu vera í skala dökkra jarðlita.  Hæð útveggja frá gólfi upp á efri brún sperru skal mest vera 2,70 m. Þakhalli skal vera á bilinu 15-45 gráður. Hámarks grunnflötur húsa sé 150 m².Mænisstefna skal vera eftir landhalla eða þvert á hann. Gólfhæð verði sem lægst yfir jörðu, en miðast við aðstæður á hverjum stað. Á hverri lóð er einungis leyfilegt að byggja eitt sumarhús. Leyfilegt er að byggja allt að 40 m² aukahús við hvern bústað. Almennt vísast til ákvæða gildandi byggingarreglugerðar um efni og gerð húsa.
Notast skal við ljósabúnað og lýsingu sem beinir ljósinu niður til jarðar.
Þess sé gætt að trjágróður á lóðum sé ekki það hár og þéttur að hann spilli útsýni frá aðliggjandi bústöðum.

2.4   Aðkoma og bílastæði

    Aðkoma að svæðinu er eftir vegi er liggur yfir Kiðjabergsland.  Eigendur sumarbústaðalanda skulu taka þátt í sameiginlegum kostnaði við aðkomuveg og vegi innan svæðisins og girðingu um svæðið samkvæmt reglugerð landeigendafélagsins.  Gera skal 3 bílastæði við hvern sumarbústað á kostnað viðkomandi lóðarhafa.

2.5   Veitur

    Almennt er reiknað með að rafmagns og vatnslagnir verði lagðar í jörðu.  Öllu skólpi frá salernum og eldhúsum bústaða skal veitt í rotþrær.  Gera skal ráð fyrir sérstakri rotþró við hvern bústað.  Tveir eða fleiri lóðareigendur geta sameinast um eina rotþró, ef það telst hagkvæmt.  Stærð rotþróar skal miðast við magn og fjölda húsa, þannig að hún gegni hlutverki sínu.  Frá rotþró skal leggja síturgreinar út í jarðveginn, þannig staðsett að ekki hljótist mengun af.  Heilbrigðiseftirlit Suðurlands setur nánari reglur um frágang frárennslis. 
    Rafmagn er háð reglum Rafmagnsveitna ríkisins.  Raflagnir, sem þegar hafa verið lagðar, og spennistöðvar sem komnar eru, eru færðar inn á deiliskipulagsuppdráttinn samkvæmt upplýsingum frá Rarik.  Vatnslagnir, sem þegar hafa verið lagðar, eru færðar inn á deiliskipulagsuppdráttinn samkvæmt teikningum Verkfræðistofu Á. G.  Eigendur bústaða skulu sjá til þess að kröfum um brunavarnir séu uppfylltar.

2.6   Sorp

    Koma skal upp lokuðum sorpkössum við hvert hús og skal allur frágangur þeirra vera snyrtilegur og lítt áberandi.  Sorpinu skal koma í sorpgám sem sveitafélagið leggur til.

2.7   Byggingarleyfi

    Byggingarleyfi fyrir nýbyggingum skal sækja um til bygginganefndar eða sveitastjórnar og skila jafnframt til byggingafulltrúa bygginganefndarteikningum í þríriti.  Með bygginganefndarteikningum skal fylgja lýsing á efni og annari tilhögun.