Árshátíð landeigendafélags Hests í Grímsnesi var haldin með nokkuð hefðbundnum hætti dagana 30.-31. júlí og tókst hið besta.

 

Miklar endurbætur hafa verið gerðar á félagsaðstöðunni í Kinnhesti í sumar undir styrkri yfirstjórn Árna arkitekts í Gaularási og Alexanders í Brekkukoti. Í þessum áfanga var lokið við að leggja stétt sem byrjað var á í fyrra og varanlegt skýli sett yfir stéttina. Unnið hefur verið nær stanslaust að þessum framkvæmdum frá því í byrjun júní og hafa þær tekist mjög vel. Margir hafa tekið þátt í vinnunni , bæði konur og karlar, og eiga þau þakkir skyldar. Rétt er að nefna þátt Skúla á Staðarhóli og Jóns Karls í Reynihlíð sérstaklega en Skúli stjórnaði öðrum fremur trésmíði og Jón Karl hellulögn og steypuvinnu.

Árshátíðin hófst að vanda á laugardeginum kl. 13:00 með Brandarakeppni barna. Keppt er um veglegan farandgrip, Rugguhestinn, en hann var í vetur í vörslu Sunnuhlíðar eftir frækilegan sigur í keppninni á síðasta ári. Rétt til þátttöku í keppninni eiga börn sem eru undir 12 ára aldri eða verða 12 ára á árinu. Að þessu sinni tóku 24 börn þátt í keppninni sem er þátttökumet. Stig eru gefi fyrir 4 atriði, efnistök og fyndni brandaranna, og framsögn og leikræna tjáningu keppenda. Dómvarsla var í höndum Matthildar í Draumahæð, Þórðar í Kletti og Jörgens í húsinu með valmaþakinu. Starf dómnefndar var venju fremur vandasamt í ár en auk metþátttöku er mikil þróun er í gæðum brandaranna og flutningi keppenda. Að lokum bar Guðbjartur í Steinabæð sigur af hólmi.

Þegar dómarar Brandarakeppninnar drógu sig í hlé vegna dómsstarfs var hafist handa við að grilla pylsur og seðja barnahópinn sem beið spenntur eftir úrslitum. Fyrir veitingum stóðu María á Maríubakka ásamt sínu liði og Ólína í Kerlingagarði og fá þær sérstakar þakkir fyrir framlag sitt.

Strax að lokinni Brandarakeppninni hófst Hestlandsmeistaramótið í kubbi. Til keppni skráðu sig 23 lið sem er einu færra en í fyrra en þá var þátttökumet. Keppt er um farandgripinn, Víkingakubbinn, en leikurinn á eins og kunnugt er rætur sínar að rekja til víkingatímans. Í fyrra vann hið vaska lið Laufeyjar eftir mjög tvísýna keppni. Liðið var nú aftur mætt einbeitt til leiks með víkingahjálma á höfði og staðráðið í að verja titil sinn. Veðrið var eins og best var á kosiðþegar keppni byrjaði, bjart og hlýtt. Þegar leið á daginn fór hins vegar að rigna og endaði keppnin í mikilli bleytu. Leikurinn hófst strax með miklum átökum og blóðfórnum. Keppnin er útsláttarkeppni og því má segja að hver leikur sé uppá líf og dauða. Eftir fjórar umferðir stóðu þrjú gamalreynd lið uppi, lið Stapa, Laufeyjar og Kerlingagarðs. Öll þessi lið hafa verið handhafar Hestlandsmeistaratitilsins á síðustu árum og sóttust öll fast eftir sigri. Í lokarimmunni kepptu liðin hvert á móti öðru. Nú var allt lagt undir. Keppnin var blaut og köld. Auk annarrar keppnisstreitu bættist nú við úrhellisrigning. Úrslit réðust þannig að Laufey var í þriðja sæti, Stapi í öðru sæti en hið unga og vaska drengjalið Kerlingagarðs stóð uppi sem sigurvegari. Liðið naut þess að hafa stórann stuðningsmannahóp sem lét rigninguna ekki aftra sér frá því að hvetja sína menn til dáða og fylgja þeim eftir til lokaslags. Hluta styrks síns sótti liðið til Parísar en tengdasonur systur Soffíu í París keppti með liðinu í ár, - eins og hann hefur reyndar gert tvisvar áður.

Sérstakar þakkir skulu færðar dómurum og starfsfólki Hestlandsmeistaramótsins en í ár lögðu venju fremur margir fram aðstoð. Meðal þeirra sem dæmdu leiki voru Sigurður í Ásgarði (Siggi bróðir), Skúli á Staðarhóli, Ása í Æsu, Jón Karl í Reynihlíð, Róbert í Laufeyju og Elsa á Staðarhóli.

Hestlandsmeistaramótinu lauk í úrhellisdembu sem hélst stanslaus fram á kvöld. Mótssvæðið var á floti og pollar á flötinni í Kinnhesti. Þegar árshátíðarnefnd bauðst að flytja kölddagskrána í golfskálann var ákveðið að taka því boði. Breyting á dagskrá var kynnt með SMS boði og með skilti sem komið var upp í Kinnhesti. Árshátðiðin var síðan sett í golfskálanum uppúr kl. 22:00. Ólína í Kerlingagarði flutti kveðju frá drottningu sem af óviðráðanlegum ástæðum var á fundi með stallsystur sinni í London. Í kveðju drottningar kom fram að hún hefði boðið stallsystur sinni á næsta þorrablót Hestlendinga. Hefði boðinu verið vel tekið en Beta sagði það fara eftir fjölskyldu-aðstæðum hvort hún mundi eiga heimangengt í byrjun næsta árs en eins og kunnugt er þráir hún fátt meira en langömmubörn eftir brúðkaupið í vor. Eins og síðustu ár var það svo Ólafur Þórarinsson (Labbi í Mánum) sem sá um tónlist og stýrði fjörugum dansleik fyrir fólk á öllum aldri. Var mæting góð og skemmtu Hestlendingar sér vel við dans og gleði fram á nótt.

Á sunnudeginum birti heldur og var þá ákveðið að kveikja í varðeldinum í Kinnhesti kl. 21:00 um kvöldið. Kvölddagskráin var kynnt með SMS og söfnuðust á annað hundrað Hestlendingar saman við varðeldinn. Nokkra stund tók að kveikja í blautum spýtunum en eftir að fór að loga var ekki aftur snúið. Tóku Hestlendingar síðan lagið við undirleik Svilabandsins og sungu fram á nótt.

Spurning og svar varðandi 
Hliðið

3.8.2011: Spurning
Í Svarta Húsinu verður mér stundum litið til hliðsins góða, örugga. Smá Lykla-Pétur stundum. Það hefur vakið athygli mína að bílstjórar amk. í þrígang geta stigið út úr bifreið við hliðið, gengið að staur norðanmegin, slegið inn númer á talnaborði, aka svo einn eða tveir í gegn og svo loka. Get ég fengið þetta númer fyrir mig og mína?
Óska þess að ofangreind athugasemd með svari verði birt á vefsíðu okkar.
Kv. Kjartan Magnússon
Svarta Húsinu.

4.8.2011: Svar
Sælir,
Í sambandi við hliðið þá var þetta sett upp tímabundið í sumar þar sem eigendafélagið er að selja laxveiði að Gíslastöðum.
Bk.Jenetta (Gjaldkeri Hestlendinga)