Sæl öll,

Hér kemur framhald af fyrirspurnum er varðar fasteignagjöld. Fyrst birti ég póstinn sem ég sendi til Ingibjargar

sveitastjóra þar sem ég nefndi að fyrirspurn minni hefði ekki verið svarað og í framhaldinu er svar sem hún sendi svar frá Ingibjörgu hjá Grímsnes- og Grafningshrepp.

 

Kveðja, Edda

Hér kemur pósturinn frá mér:

Sæl Ingibjörg og takk fyrir svörin, en þau svara ekki þeirri spurningu sem ég bar upp.

Spurningin er þannig:

Hvað eru eigendur frístundahúsa að greiða með fasteignagjöldum sínum til sveitarfélagsins, hvaða þjónustu á sveitarfélagið að veita þessum hópi.

Við áðurnefnda "forgangsröðun" hvar erum við á þeim lista í aðstæðum sem þessum en við Kiðjabergsveginn má áætla að séu um 300-400 frístundahús og er því mikil umferð um veginn um helgar.

Einhver lög eða reglugerðir hljóta að taka á þessu eins ég ætla að innheimta fasteignagjalda falli undir lög eða reglugerðir. Endilega bentu á hvað lög eða reglugerðir þetta eru. Frístundahús greiða sérstaklega sorphirðugjald og fyrir seyrulosun.

Öll svör og verða birt á vef okkar í Hestlandi.

Kveðja Edda Ástvaldsdóttir formaður í félagi

Hestur Landeigendafélags.

Svar:

Sæl Edda

Hvað eigendur frístundahúsa eru að greiða með fasteignagjöldum sínum til sveitarfélagsins þá eru fasteignagjöld einn af tekjustofnum sveitarfélaga skv. lögum nr. 4/1955 og reglugerð nr. 1160/2005. Í þeim kemur skýrt fram af hvaða eignum skal greiða þennan skatt og innan hvaða marka. Skattar eru ekki þjónustugjöld og skilgreiningin á því hvernig þeim fjármunum sem innheimt eru af fasteignum einstaklinga og fyrirtækja er ráðstafað, er að finna í ársreikningum sveitarfélagsins sem finna má á heimasíðu sveitarfélagsins www.gogg.is

Tekjur vegna fasteignaskatts eru um 50% af tekjum sveitarfélagsins og eru allar eignir í sveitarfélginu þar inni svo sem lögbýli, virkjanir, sumarhús og aðrar byggingar. Kostnaður Grímsnes-og Grafningshrepps til brunamála er til dæmis af fasteignum í sveitarfélaginu og hlutfall Grímsnes- og Grafningshrepps til Brunavarna Árnessýslu jafn hátt og mun stærri sveitarfélög eins og Hveragerði, Bláskógabyggð og Ölfus. Tekjur sveitarfélagsins af fasteignaskatti fara meðal annars í rekstur slökkviliðs, almannavarnir, rekstur sundlaugar, rekstur Byggðasafns Árnesinga og Listasafns Árnesinga, menningarviðburði eins og Brú til Borgar, Grímsævintýri og fleiri, skrifstofu skipulags- og byggingarfulltrúa, skrifstofu sveitarfélagsins, ferðamálfulltrúa ásamt fleiri atriðum. Öll þessi atriði eru ekki aðeins fyrir íbúa sveitarfélagsins heldur alla.

Varðandi „áðurnefnda" forgangsröðun að þá hlýtur það að vera eðlilegt að aðalvegir á Suðurlandi séu á undan Kiðjabergsveginum þó mörg sumarhús séu við Kiðjabergsveginn. Kiðjabergsvegurinn er héraðsvegur og um hann gildir sama þjónusta og um Sólheimahring, Vaðnesveg og Búrfellsveg svo dæmi séu tekin.

Sorphirðugjald og seyrulosunargjald eru þjónustugjöld sem innheimt eru vegna viðkomandi þjónustu og eins og þú getur séð í ársreikningum sveitarfélagsins þá standa sorphirðu- og seyrulosunargjöld alls ekki undir þeim kostnaði sem þau eiga að bera.

Með bestu kveðju,

Ingibjörg Harðardóttir

Sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps