Þegar komið er upp á klettabrún eftir Gíslastaðaveginum kemur í ljós lúpínuflekkur á hægri hönd, skammt fyrir sunnan efri vatnstank Bunu (í átt að brúninni). Henni var komið fyrir án heimildar okkar jarðeigandanna og hætta er á að hún breiði úr sér frekar en orðið er. Töluverð hætta er á að hún steypist fram af klettunum og niður í sumarbústaðalöndin þar fyrir neðan.

Stjórn félags okkar hefur því ákveðið að ráðast til atlögu við plöntuna laugardaginn 28. júlí n.k. kl. 14.00. Þess er óskað að allir sem vettlingi geta valdið mæti þá og leggi okkur lið. Þetta er ekki mjög stór flekkur, kannski 100-200 fermetrar. Það er mikilvægt að vinna verkið eigi síðar en strax þar sem lúpínan fer að henda af sér fræunum á næstu dögum.

Meiningin er að höggva/klippa/skera plöntuna niður og eitra síðan það sem eftir stendur. Fólk hafi með sér þau verkfæri sem geta komið að gagni, klippur, sláttuorf, vel brýndar stunguskóflur og annað sem gagnast.

Félag sumarbústaðaeigenda mun leggja þessu lið og setja um það tilkynningu á heimasíðu félagsins.

Vonast er til að sem flestir geti mætt, því margar hendur vinna létt verk.