Árshátíð landeigendafélags Hests 2012 fór fram með hefðbundnum hætti laugardaginn 4. ágúst s.l. Þrátt fyrir að sumarið í Hesti hafi verið með eindæmum þurrt og sólríkt varð ekki lát á veðurblíðunni um Verslunarmannahelgina en sól skein í heiði allan laugardaginn í stillu og góðum sumarhita.
Aðstaðan í Kinnhesti hefur stöðugt verið að batna og á stjórn félagsins þakkir skyldar fyrir framtakssemi sína á þessu sviði. Stóra skýlið skapar mikið öryggi fyrir þá sem skipuleggja þar útiatburði. Hátt í annað hundrað manns voru mættir um eftirmiðdaginn á Brandarakeppni barna og Kubb-mótið og um kvöldið var áætlað að 200 manns hefðu komið á varðeldinn.

Hátíðin hófst að vanda með Brandarakeppni barna. Þátttaka var mjög góð en 25 börn tóku þátt í keppninni. Mátti þar heyra marga nýja og frumlega brandara en einnig gamalkunna kunningja sem kitluðu hláturtaugar áhorfenda. Öryggi í framsögn og sviðsframkomu vex með ári hverju og var ánægjulegt að fylgjast með spenntum foreldrum og aðstandendum hvetja börn sín og hvetja þau við flutninginn. Ljóst er að undirbúningur er víða mikill eins og fram kemur í árangri hjá börnunum. Kröfur til dómara eru að sama skapi miklar en að þessu sinnu sáu þau Rósa í Árseli, Jóhannes í Æsu og Jón í Hestmýri um að dæma undir styrkri formennsku Rósu. Dómarar meta frammistöðu á grundvelli fjögurra þátta, efnistaka, framsagnar, leikrænnar tjáningar og fyndni. Að þessu sinni var tölvutækni notuð til að reikna út niðurstöður keppninnar. Sá Þórhildur í Kerlingagarði um þann hluta. Eftir vandasöm dómarastörf og tölvuúrvinnslu á niðurstöðum stóð Ásrún Ásta í Kvisti uppi sem sigurvegari. Hún hlaut því farandbikarinn, Rugguhestinn, til varðveislu fram að næstu keppni. En að lokum kallaði Rósa dómnefndarformaður alla þátttakendur upp og hengdi verðlaunapening um háls þeirra og óskaði þeim til hamingju með frammistöðu og þátttöku í keppninni.

Að Brandarakeppni barna lokinni hófst Hestlandsmeistaramót í Kubb. Þetta var í sjöunda sinn sem mótið var haldið en keppt er um hinn eigulega farandgrip, Víkingakubbinn. Mótið styðst við reglur heimsmeistarakeppninnar í Kubb sem árlega fer fram í Gotlandi í Svíþjóð. Tvö frávik eru þó gerð frá reglum heimsmeistarakeppninnar. Vallarstærð er heldur minni eða 4x6 metrar í stað 5x8 metrar og 40 mínútna takmörk eru sett á tímalengd hvers leiks. Er það gert til að keppnin geti farið fram á einum degi. Leikið var á fjórum völlum en Árni í Gaularási hafði slegið vellina og gengið frá keppnissvæðinu. Metþátttakan var að þessu sinni en 27 lið skráðu sig til keppni. Margir bæir sendu fleiri en eitt lið. Auk hefðbundinna verðlauna fyrir árangur eru sérstök verðlaun veitt fyrir búninga. Í ár voru allflest lið í búningum sem báru bæði hugmyndaauðgi og saumahandbragði gott vitni. Keppnin er útsláttakeppni sem setur setur sérstakan svip á hana þar sem minnstu mistök geta komið jafnvel besta liði úr keppni. Það á því við um þessa keppni, sem fram fer meðal vina í annars friðsömu samfélagi, að enginn er annars vinur í leik. Um dómgæslu sáu Sigurður í Ásgarði, Skúli á Staðarhóli, Alexander í Brekkukoti og Róbert í Laufeyju. Aðrir komu einnig að dómgæslu þar sem Róbert var meðal keppenda í mótinu. Þrátt fyrir mikla spennu og djarflega framgöngu í leiknum fór keppnin hið besta fram. Kerlingagarður, sem átti titil að verja, var mættur með tvö lið í ár. Ljóst var að lið Laufeyjar og Reynihlíðar voru í fantaformi en þau slógu sitt hvort lið Kerlingagarðs úr keppni eftir miskunnarlaus átök í annarri umferð. Öll þessi lið hafa sigrað keppnina og eiga safn verlaunagripa frá fyrri árum. Þá vakti frammistaða nýliðanna í Kletti aðdáun en þeir náðu fjórða sæti í keppninni eftir frækilega keppni um við Laufeyju 3 um 3.-4. sæti. Til úrslita um 1.-2. sæti kepptu Laufey 1 og Reynihlíð 1. Leikurinn var erfiður og langdreginn þar sem liðin voru mjög jöfn. Að lokum var leikurinn stöðvaður vegna ákvæðis um tímatakmörkun og sigur dæmdur Laufeyju með minnsta mögulega mun. Búningaverðlaun féllu í hlut Kerlingagarðs en tengdasynir ábúenda höfðu klæðst kjólum húsfreyju og málað varir sínar rauðar. Þótti það tiltæki sýna hugrekki og djörfung auk þess sem kjólarnir þóttu fara ungu mönnunum einstaklega vel.

Veitingar voru veittar á vegum félagsins á meðan á keppninni stóð. Anna í Laufeyju og Elsa á Staðarhól grilluðu pylsur og gáfu gos að drekka. Grill var fengið að láni í Dropa.

Hestlendingar mættu sigurreifir til varðeldsins um kvöldið í kjölfar frækilegs sigurs „strákanna okkar" á Frökkum á Ólympíuleikunum. Sigurður í Ásgarði hafði skreytt árshátíðarsvæðið með fallegum ljósaseríum. Benóný í Draumi hafði vökvað svæðið umhverfis varðeldinn og sá um að eldur festist ekki í grasi né öðrum þurrum gróðri. Það var orðið kvöldsett þegar varðeldurinn var tendraður kl. 22 í kvöldsól og blíðskaparveðri. Edda í Brekkukoti, drottning Hestlendinga, ávarpaði samkomuna í upphafi og lýsti árshátíðina formlega setta. Halldór í Kerlingagarði sá síðan um Hestlandsskál og minni drottningar. Að þessu sinni lék Garðar Garðarsson á gítar og stjórnaði hefðbundnum brekkusöng. Þjóðskáldið úr Keflavík, Þorsteinn Eggertsson, söng nokkur lög við undirleik Garðars til óblandinnar ánægju allra viðstaddra. Gamli stuðboltinn hefur greinilega engu gleymt og tókst ekki síður vel upp við að syngja gömul bítlalög en lög við eigin texta. Hestlendingar undu sér síðan við varðeld og söng fram eftir kvöldi en samkomunni lauk laust eftir miðnætti.

Fyrir hönd árshátíðarnefndar vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu Hestlendingum sem aðstoðuðu við undirbúning og framkvæmd árshátíðarinnar. Þá vil ég þakka öllum þátttakendum fyrir ánægjulega árshátíð.

Halldór í Kerlingagarði