Kæru viðskiptavinir:

Um leið og við hjónin viljum þakka ykkur fyrir viðskiptin á þessu tæplega þriggja ára tímabili sem liðið er síðan við tókum við rekstri Þrastalundar í Grímsnesi, viljum við tilkynna ykkur að samningar við eigendur staðarins, Ungmennafélags Íslands, um endurskoðun á allt of háu og óraunhæfu leigugjaldi fyrir afnot af húsnæðinu, hafa ekki tekist. Slíkt hefur leitt til þess að Ungmennafélag Íslands hefur sagt okkur upp leigusamningnum.

Við töldum að eðlilegt og sanngjarnt leiguverð fyrir afnotin væri betri valkostur heldur en að hrekja alla leigutaka héðan í burtu, eins og raun hefur verið frá því árið 2004 er núverandi húnæði var byggt. Mat stjórnar UMFÍ á ástæðum þess er trúlega það að allir leigutakar hafa verið vanhæfir til starfsins, fremur en það að sú stjórn sem ákvörðun tók um byggingu þessa húsnæðis hafi gert mistök með ákvarðanatöku sinni og mikilvægt sé að vinna úr og leiðrétta þau mistök.

Á þessum misserum sem við höfum varið hér öllum stundum höfum við lagt ofuráherslu á að bygga upp trausta ímynd staðarins hjá ferðaþjónustunni í landinu og sumarhúsasamfélaginu hér á svæðinu. Hefur sú ímynd sem til stóð að stækka vaxið hægt og bítandi allt frá fyrsta degi. Nú hefur stjórn UMFÍ hins vegar ákveðið að bjóða ykkur upp á nýja og væntanlega mun betri ásjónu þess yndislega svæðis.

Enn og aftur viljum við þakka ykkur fyrri þau spor sem við stigum hér saman á þessum ægifagra stað við Sogið. Þessari vin sem Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri og athafnamaður, gaf Ungmennafélagi Íslands til eignar og umhirðu því hann vildi – „Íslandi allt"-

Bestu kveðjur úr Þrastalundi

Kristín Anný og Valgeir Ingi

Vinsamlegast komið þessu á framfæri við félagsmenn á ykkar svæði. Varðandi það hvenær nýjir rekstraraðliar taka hér við verður Ungmennafélag Íslands að veita ykkur upplýsingar um.