Fulltrúar stjórna sumarhúsaeigenda í Hesti og Kiðjabergi fóru á fund með Gunnari Þorgeirssyni oddvita og Berki Brynjarssyni verkfræðingi hjá Grímsnes og Grafningshreppi mánudaginn19. maí. Tilefni fundarins var að ræða möguleika á lagningu hitaveitu í sumarhúsasvæðin í framhaldi af þeirri könnun sem unnið hefur verið að um áhuga félagsmanna á að taka inn hitaveitu. Könnunin sýndi að 112 sumarhúsaeigendur hafa sýnt málinu áhuga. Á fundinum var lagt fram formlegt erindi til sveitarstjórnar um að hafinn verði undirbúningur að því að leggja hitaveitu í þessi svæði.
Erindinu var mjög vel tekið og reyndar haft á orði að það væri seinna fram komið en hefði mátt vænta enda hitaveita komin í nágrennið. Á fundinum kom fram að gera má ráð fyrir að sveitarfélagið muni hefja formlega könnun á verkefninu fyrir haustið og jafnvel megi vænta þess að framkvæmdir geti hafist á vormánuðum næsta árs, 2015. Verkefnið yrði trúlega unnið í tveim áföngum og fengi hluti svæðisins sem næst er Hraunborgum heitt vatn á haustmánuðum 2015 en aðrir um það bil ári seinna.
Upplýsingar um framkvæmdina munu því væntanlega liggja fyrir í haust og í framhaldi af því verður kallað eftir skuldbindandi viljayfirlýsingu um þátttöku. Ef þetta gengur eftir má gera ráð fyrir að fyrri hluti stofngjalds komi til greiðslu í janúar/febrúar 2015.
Á fundinum var einnig rætt um möguleika á því að sveitarfélagið hefði frumkvæði að því að lagður verið ljósleiðari á svæðið á sama tíma.
Ef einhverjir hafa ekki tekið þátt í skoðanakönnuninni er enn tækifæri til þess að vera meðal þeirra sem þegar hafa tekið þátt.
- Details