Í ágúst 2014
Ágætu félagsmenn

Sameiginlegir ruslagámar í landi Kiðjabergs eru eingöngu ætlaðir fyrir heimilissorp eins og greinilega má lesa á skilaboðum sem sett eru á gámana. Eins og allir hafa orðið varir við, sem erindi eiga að gámunum, er umgengni á svæðinu við gámana vægast sagt verulega ábótavant.  Ber þar einkum tvennt til.  Annars vegar er söfnunargámur björgunarsveitarinnar Trinton sem er annað hvort of lítill eða of sjaldan tæmdur.  Vakin hefur verið athygli björgunarsveitarinnar á því að tæma þurfi söfnunargáminn oftar eða útvega stærri gám.

Hitt er verra við að eiga þegar einhverjir hunsa þau tilmæli sem lesa má á gámunum um að allt annað en heimilissorp skuli fara með á gámastöðina við Seyðishóla eða á aðra sambærilega gámastöð.  Nýlega hefur einhver eða einhverjir leyft sér að fleygja loki af heitum potti, gasgrilli, málningardósum o.fl. við gámana og ætlast greinilega til þess að aðrir þrífi eftir þá.  Slík umgengni er viðkomandi til skammar en það sem er verra er að þar sem ekki er vitað hver eða hverjir eiga hlut að máli er skömmin okkar allra sem viljum ganga vel og snyrtilega um þetta sameiginlega svæði.   

Hér með er því skorað á þá sem hent hafa rusli við gámana að fjarlægja það.

Um leið er hvatt til sameiginlegs átaks um að ganga vel og snyrtilega um gámasvæðið og vekja athygli iðnaðarmanna, sem koma að einhverjum verkefnum fyrir félagsmenn, á þeim reglum sem gilda um gámasvæðið. 

Með sumarkveðju

Ólafur Kristinsson, form. stjórnar Hestlendinga
Jens Helgason, form. stjórnar sumarhúseigenda Kiðjabergi