F O L A L D I Ð
Fréttablað Hests Landeigendafélags í Grímsnesi

1.tbl. 15 árg.                                                                                       Febrúar 2007
________________________www.hestland.is________________________

 Ágætu félagsmenn í Hesti.

            Gott er að nota skammdegið til inni verka, svo sem að  draga fram uppgjör liðins árs, velta fyrir sér komandi ári og skipuleggja dagatalið. Þetta er ástæða þess að stjórnin hefur  ákveðið að boða snemma til aðalfundar.  Aldrei fyrr hefur verið boðað svo snemma til aðalfundar en í fyrra þótti fundurinn snemma á ferðinni miðað við árin þar á undan, en þá  var hann  í mars. Almennt var að heyra að menn væru ánægðir með þetta enda ekki eftir neinu að bíða þar sem  uppjgörsár félagsins er samfara almanaksári.

            Ilmur af súrmeti, síld og hákarli liggur í loftinu um þessar mundir og hafa Hestlendingar þegar blótað Þorra að sínum sið og voru snemma í því, allt samkvæmt venju. Var það gert í Golfskálanum að Kiðjabergi, mættu 73 til blóts sem er algjört met. Skemmtinefnd stóð sig frábærlega að vanda. Vísur með bæjarnöfnum voru lesnar upp, en þær eru nú komnar á  heimasíðuna, annállinn var á sínum stað söngur og gamanmál.

             Göngustígar eru skipulagðir innan svæðis Hestlands og sjást þeir vel á deiliskipulagi, en deiliskipulagið er einnig að finna á heimasíðunni. Biðjum við alla sem eiga lönd sem liggja að göngustíg að athuga vel að planta ekki í stígana. Er það næsta átak okkar í Hestlandi að gera stígana ,, göngufæra” þ.e. að merkja þá og jafna út þúfum.

Að lokum hvet ég alla til að mæta á aðalfundinn sem verður haldinn  
fimmtudaginn 22. febrúar 2007 kl. 20,00 að Skipholti 70 Reykjavík. 

Á dagskrá verða:
Venjuleg aðalfundastörf, 
Göngustígar,
Önnur mál, löglega upp borin.

Edda Ástvaldsdóttir formaður